Ágætu kollegar,
Nú er liðin ein vika síðan verkfall hófst hjá hjúkrunarfræðingum sem starfa hjá íslenska ríkinu. Á þeim tíma sem liðinn er hafa um 1500 hjúkrunarfræðingar lagt niður störf en um 600 þeirra manna þá öryggislista sem í gildi eru auk þeirra undanþágubeiðna sem hafa verið veittar.
Mikið mæðir á þeim sem standa vaktina og færi ég þeim þakkir frá okkur öllum. Við höfum lagt okkur eftir því að standa vörð um öryggi skjólstæðinga okkar með því að samþykkja nauðsynlegar undanþágubeiðnir enda hefur verið ljóst frá upphafi verkfallsins að sjúklingar skulu njóta vafans við afgreiðslu beiðnanna.
Það hefur sýnt sig á þessari viku að heilbrigðiskerfið getur ekki án hjúkrunarfræðinga verið. Gífurlegt álag er á heilbrigðisstofnunum og ástandið þannig að erfitt er að sinna þeim verkefnum sem brýnast er að sinna. Þetta getur ekki gengið mikið lengur.
Ekki hefur verið fundað í deilunni frá því á föstudag og er það miður. Hjúkrunarfræðingar eru tilbúnir til viðræðna hvenær sem er en ljóst er að viðsemjendur okkar þurfa að koma með tilboð sem raunhæft er að hjúkrunarfræðingar geti samþykkt.
Það er réttmæt krafa að menntun okkar og ábyrgð verði metin til launa og við séum með sambærileg laun og aðrir háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn. Það er einnig eðlileg krafa að kynbundnum launamun sé útrýmt. Lífsnauðsynlegt er fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi að hér fáist til starfa hjúkrunarfræðingar til framtíðar og að nýliðun stéttarinnar verði betri. Gera þarf hjúkrunarstarfið samkeppnishæft við önnur störf til að ungt fólk sjái hag sinn í því að læra hjúkrunarfræði og lærðir hjúkrunarfræðingar snúi aftur til starfa innan heilbrigðiskerfisins.
Samstaða stéttarinnar er sem aldrei fyrr. Við teljum að nú sé rétti tíminn til að sækja þær kjarabætur sem við teljum okkur eiga skilið. Það skiptir miklu máli að við stöndum þétt við bakið á hvert öðru. Munum að þetta er tímabundið ástand sem líða mun hjá.
Mætum í verkfallsvörslu og verkfallskaffi. Þar er kjörið tækifæri til að hitta kollega sína, ræða málin og fá stuðning frá öðrum sem eru í sömu sporum.
Baráttukveðja,
Ólafur