Á tíunda tímanum í kvöld skrifuðu samninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og samninganefnd ríkisins undir kjarasamning.
Samninganefnd Fíh telur að gerðardómi hafi í lögum nr. 31/2015 verið settar þröngar forsendur komi til útskurðar hans um kjaramál hjúkrunarfræðinga. Það er því mat samninganefndar hjúkrunarfræðinga að ekki hafi verið hægt að komast lengra í kjarabaráttu hjúkrunarfræðing miðað við aðstæður.
Á sameiginlegum fundi samninganefndar Fíh, trúnaðarmannaráðs og framkvæmdarráðs stjórnar Fíh var niðurstaðan sú að betra sé gefa hjúkrunarfræðingum tækifæri til að kjósa um þann samning sem fyrir liggur. Með því geta hjúkrunarfræðingar sjálfir metið hvort að samningurinn sé þess eðlis að niðurstaðan sé viðunandi fyrir stéttina. Samningsrétturinn er því hjá hjúkrunarfræðingum sjálfum en ekki hjá þeim gerðardómi sem skipaður væri í málinu.
Kynning á kjarasamningi verður á næstu dögum. Nánari upplýsingar birtast á morgun.