Hjukrun.is-print-version

Varðandi frádrátt á launum hjá hjúkrunarfræðingum í verkfalli og endurgreiðslu

RSSfréttir
2. júlí 2015


Ekki er sátt milli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Fjársýslu ríkisins/heilbrigðisstofnana um hvernig haga skal frádrætti vegna verkfalls og hvernig haga skuli leiðréttingu vegna vakta sem unnar voru í verkfalli.

Varðandi frádrátt á launum vegna verkfallsins þá snýst málið um hvort meta eigi frádrátt út frá tímum sem hjúkrunarfræðingar áttu að vera að vinna meðan á verkfalli stóð eða hver vinnuskylda þeirra hefði átt að vera. Þetta getur skipt máli ef hjúkrunarfræðingur var búinn að skila vinnuskyldu sinni áður en verkfall hófst eða skilaði henni eftir að verkfalli lauk. Það er mat Fíh að hagstæðara væri ef frádráttur hefði verið miðaður út frá þeim klukkustundum sem hjúkrunarfræðingur átti að vera að vinna samkvæmt fyrirliggjandi vaktaskýrslu fyrir verkfall en hjúkrunarfræðingur vann ekki samkvæmt vegna verkfalls.

Varðandi leiðréttingu þá snýst deilan um það hvort greiða eigi fyrir unnar vaktir eða unnar klukkustundir á meðan verkfalli stóð. Það er mat Fjársýslu ríkisins að telja eigi unnar vaktir, en Landspítalinn hefur metið það svo að greiða eigi fyrir unna tíma í verkfalli. Fíh er sammála túlkun og framkvæmd Landspítala.

Misjafnt er hvort að heilbrigðisstofnanir hafi farið í leiðréttingu á launum hjúkrunarfræðinga vegna vinnu í verkfalli 1.júlí þar sem ágreiningur er um hvernig haga á leiðréttingunni. Ljósmæðrafélagið hefur kært reiknireglu Fjársýslu ríkisins fyrir Félagsdóm. Því máli var vísað frá vegna formgalla í síðustu viku, en til stendur að stefna ríkinu á ný.

Því er ljóst að ekki fæst á hreint með leiðréttingu á launum vegna frádráttar í verkfalli eða leiðréttingu fyrir unna vinnu fyrr en niðurstaða er komin í mál Ljósmæðrafélagins fyrir Félagsdómi.

Út frá fyrirliggjandi reglum sem unnið er eftir lítur dæmið svona út:

Frádráttur
Við útreikning á frádrætti í verkfalli er notast við eftirfarandi reikningsformúlu:

Fjöldi virkra daga/21,67* starfshlutfall (21,67 dagar/mán telst sem 100% starfshlutfall)

Dæmi: Fyrir hjúkrunarfræðing í 80% vinnu lítur dæmið svona út:
Maí 3 virkir dagar: 3/21,67*0,8 = 11,08% frádráttur grunnlaunum
Júní 10 virkir dagar: 10/21,67*0,8 = 36,92% frádráttur af grunnlaunum
Heildar frádráttur= 47,99%

Leiðrétting
Í gangi eru tveir útreikningar. Annars vegar útreikningur sem fjársýsla ríkisins notar og hins vegar útreikningur sem Landspítali styðst við.

Regla Fjársýslu ríkisins
fjöldi vakta/21,67* starfshlutfall

Regla Landspítala:
fjöldi unninna klst./173,36

Dæmi: Fyrir hjúkrunarfræðing í 80% vinnu sem vann tvær 8 klst. vaktir í maí og fimm 8 klst. í júní meðan á verkfalli stóð lítur dæmið svona út:
Regla fjársýslunnar
Maí: 2/21,67*0,8 = 7,3%
Júní: 5/21,67*0,8 = 18,4%
Heildar leiðrétting 25,7%

Regla Landspítala
Maí: 16/173,36 = 9,2%
Júní: 40/173,36 = 23,04%
Heildar leiðrétting: 32,24%

Af hjúkrunarfræðingi er því dregið
Samkvæmt reglu fjársýslunnar
11,07% 1. júní
11,22% 1. júlí

Samkvæmt reglu Landspítala
11,07% 1. júní
4,68% 1. júlí

Dregið var af launum hjúkrunarfræðinga 1.júní og 1.júlí. Hjá hjúkrunarfræðingum sem vinna á Landspítalanum var leiðrétt fyrir unna vinnu í verkfallinu.

Ef hjúkrunarfræðingur starfaði skv. öryggislista (vaktin var ákveðin daginn áður eða í vikunni áður en vaktin var unnin) á hann að halda sínum launum fyrir vaktina.

Hjúkrunarfræðingur sem starfaði skv. undanþágu frá öryggislista á að hafa fengið greidda morgunvaktir á dagvinnulaunum, kvöld-, nætur- og helgarvaktir eiga að vera greiddar með yfirvinnulaunum. Ekki eru borgaðir matar og kaffitímar í yfirvinnu eins og er gert á venjulegum vöktum eða aukavöktum.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála