Hjukrun.is-print-version

Doktorsvörn í hjúkrunarfræði

RSSfréttir
21. ágúst 2015

 

 Marianne Elisabeth Klinke ver doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði:

Gaumstol eftir heilablóðfall í hægra heilahveli: Klínískur gangur og reynsla sjúklinga - Hemispatial neglect following right hemisphere stroke: Clinical course and patients' experiences.

Mánudaginn 31. ágúst kl.13:00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands

Andmælendur eru dr. Marit Kirkevold, prófessor við Háskólann í Ósló, og dr. Árni Kristjánsson, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands.

Leiðbeinendur í verkefninu starfa allir hjá Háskóla Íslands og voru dr. Helga Jónsdóttir, prófessor og deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar, dr. Björn Þorsteinsson, lektor við Sagnfræði- og heimspekideild og dr. Haukur Hjaltason, dósent við Læknadeild.

Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Dan Zahavi, prófessor við Háskólann í Kaupmannahöfn, og dr. Þóra Berglind Hafsteinsdóttir, prófessor hjá Rudolf Magnus Institute - University Medical Center í Utrecht, Hollandi.

Dr. Erla Kolbrún Svavarsdóttir, varadeildarforseti Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl.13.00.


Ágrip
Gaumstol kemur fyrir hjá um helmingi sjúklinga eftir heilablóðfall í hægra heilahveli. Það veldur skertri getu sjúklinga til að átta sig á og bregðast við áreitum frá þeirri hlið líkamans sem er gagnstæð hlið heilaskaðans. Gaumstol felur einnig í sér erfiðleika við að beina og viðhalda athygli að því sem fyrir ber vinstra megin í skynsviðinu. Gaumstolseinkennin eru hamlandi fyrir sjúklinga og leiða til verri batahorfa en aðrar afleiðingar heilablóðfalls. Meginmarkmið doktorsritgerðarinnar var að stuðla að auknum skilningi á gaumstoli, sem nýst getur í daglegri umönnun. Að auki er markmið að þróa nýjar aðferðir til að meta og meðhöndla gaumstol sjúklinga með heilablóðfall. Ritgerðin inniheldur fimm greinar. Í grein I eru settar fram aðferðir við að afla rannsóknarganga um reynslu sjúklinga með gaumstol. Í grein II er lýst reynslu sjúklinga með gaumstol á fyrsta mánuðinum eftir heilablóðfallið. Í grein III eru hefðbundin próf sem notuð hafa verið til þess að meta gaumstol rannsökuð og þau borin saman við athuganir á daglegum athöfnum sjúklinga á eigin heimili eftir útskrift úr endurhæfingu. Í grein IV er (i) metin framvinda miðlungs og alvarlegs gaumstols hjá sjúklingum fram yfir útskrift úr endurhæfingu, (ii) metið næmi klínískra mælitækja á gaumstoli og (iii) mæld samsvörun milli niðurstaðna úr mati rannsakanda og sjúklinga á gaumstoli á ólíkum tímum. Í grein V eru greindar aðferðir til þjálfunar einstaklinga með gaumstol sem innleiða má í daglega umönnun á sjúkradeildum. Í heild sinni veita niðurstöðurnar nýja vitneskju um reynslu, áskoranir, afdrif, mat og meðferð sjúklinga með gaumstol. Á þessari þekkingu er mikilvægt að byggja þegar umönnun þessara sjúklinga er ákveðin.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála