Hjukrun.is-print-version

Fræðsla og umbætur á gæðum heimahjúkrunar

RSSfréttir
5. október 2015

Byltur eru aðalástæða skerðingar og dauða vegna slysa hjá fólki yfir 75 ára. Mikilvægt er að reyna að fyrirbyggja þær en með fræðslu og umbótum á gæðum heimahjúkrunar er hægt að draga verulega úr áhættu á byltum að því er fram kemur í íhlutunarrannsókn Unnar Þormóðsdóttur, Sólveigar Ásu Árnadóttur og Ingibjargar Hjaltadóttur á umbótastarfi og mat á gæðum heimahjúkrunar með gæðavísum interRAI-Home Care matstækisins. 

Einstaklingsmiðað mat á heilsufari og þörfum skjólstæðinga
Með lengri ævi og lækkandi fæðingartíðni hefur aldurssamsetning þjóðarinnar tekið nokkrum breytingum. Langtímarannsóknir á öldruðum benda til þess að eldra fólki fjölgi hlutfallslega mest og þar af leiðandi lifir stærra hlutfall þjóða við heilsubrest og minnkandi færni. Þjónusta við eldri borgara hefur í auknum mæli færst inn á heimili skjólstæðingsins en tæplega helmingur þeirra sem eru 80 ára og eldri þiggja einhverja þjónustu og um fimmtungur þarf mikla aðstoð heima. Þetta leiðir af sér meiri þörf fyrir heilbrigðis- og félagsþjónustu og er stefna stjórnvalda að aldraðir fái þá þjónustu sem geri þeim kleift að búa heima eins lengi og unnt er.

Með aukinni þörf fyrir þjónustu á heimilum fólks hefur krafan um aukin gæði þjónustunnar einnig vaxið. Til að fullnægja slíkum kröfum er nauðsynlegt að meta gæði þjónustunnar með reglubundnum hætti. Á síðustu árum hefur þó reynst erfitt að fylgjast með gæðum heimaþjónustu þar sem viðeigandi matstæki hafa ekki verið aðgengileg. Matstækið interRAI-Home Care er sérsniðið fyrir skjólstæðinga í heimaþjónustu en notkun þeirra felur í sér að gert er einstaklingsmiðað mat á heilsufari og þörfum einstaklinga sem síðan er skráð með stöðluðum hætti. Upplýsingarnar eru svo nýttar við gerð meðferðaráætlana. Velferðarráðherra hefur hvatt sveitarfélög og stofnanir sem annast öldrunarþjónustu til að nota interRAI-HC til að gera samræmt hlutlægt mat á þjónustuþörf aldraðra.

Lengri sjálfstæð búseta
Rannsóknin var framkvæmd á skjólstæðingum á heilsugæslustöðinni á Selfossi sem var tilraunastöð á interRai fyrir landsbyggðina. Að sögn Unnar Þormóðsdóttur, hjúkrunarstjóra á heilsugæslustöðinni á Selfossi við heilbrigðisstofnun Suðurlands, fæst mikil vitneskja um skjólstæðingana með notkun interRAi matstækisins. Algeng viðfangsefni innan öldrunarþjónustu eru meðal annars byltur, félagsleg einangrun og verkjavandamál eldra fólks. Þegar gæðavísir um félagslega einangrun er reiknaður er skoðað hve margir einstaklingar sýna merki um slíkt, þ.e. eru einir í langan tíma, tjá sig um einmanaleika eða hafa áhyggjur af minnkaðri félagslegri þátttöku sinni. Í rannsókninni var íhlutun beint að gæðavísum um byltur, félagslega einangrun og ófullnægjandi verkjastillingu aldraðra, þ.e. mælt var fyrir og eftir fræðslu til starfsfólks. Farið var meðal annars yfir áhættuþætti bylta, svo sem fyrri sögur um byltur, hindranir í líkamlegri færni, umhverfisþætti og lyfjanotkun en sýnt hefur verið fram á að meiri líkur eru á annarri byltu ef saga er um fyrri byltu og því mikilvægt að reyna að fyrirbyggja þær. Úrbætur tengdar byltum voru til dæmis að fá að fjarlægja mottur, óska eftir því við lækni að fara yfir lyf, skoða þörf fyrir hjálpartæki og hvort þau væri rétt notuð. Fyrra mælingatímabilið stóð yfir fyrstu sex mánuði 2012 og seinna frá miðjum nóvember til lok ársins 2012. Í upphafi rannsóknar höfðu þátttakendur verið skjólstæðingar heimahjúkrunar í tvö ár og fimm mánuði að meðaltali. Ríflega helmingur bjó einn og ríflega þriðjungur voru giftir eða í sambúð. Meðalaldur þátttakenda var 79 ár, yngsti 60 ára og elsti 94 ára og var hlutfall kvenna 64,5%. Eftir seinna mat kom í ljós að marktækur munur varð á einum gæðavísi en það var algengi bylta sem lækkaði úr 22,6% í 0%. Ekki var marktækur munur á algengi félagslegrar einangrunar og ófullnægjandi verkjastillingar milli mælinga en algengi félagslegrar einangrunar fór úr 25,8% í 19,3% og ófullnægjandi verkjastillingar úr 22,6% í 9,7%.

Með aukinni fræðslu til starfsfólks er hægt að bæta þjónustu við skjólstæðinga heimahjúkrunar en góð heimaþjónusta getur lengt sjálfstæða búsetu og komið í veg fyrir óþarfa hnignun á heilsufari. Unnur segir að miklar vonir séu bundnar við matstækið, en niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að interRAI-HC-matstækið er gagnlegt til að byggja á og skipuleggja fræðslu og meta árangur af umbótastarfinu og breytingum á vinnulagi. Höfundar munu kynna rannsóknina á ráðstefnu í Toronto í Kanada næsta vor.

Heildartexti greinar er að finna hér

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála