Fulltrúar fagsviðs Fíh og fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga boðaðir á fund velferðanefndar um málefni eldri borgara
Á fundi velferðarnefndar Alþingis miðvikudaginn 23. september s.l. var fjallað um málefni eldri borgara. Velferðarnefnd boðaði fulltrúa Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á sinn fund til að kynna skýrslu fagsviðs félagsins og fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga um hjúkrunarþjónustu eldri borgara. Í skýrslunni er sett fram stefna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í hjúkrun og heilbrigðisþjónustu aldraðra til 2020.
Stefnan var kynnt 12. maí á hátíðarfundi Fíh í tilefni alþjóðadags hjúkrunarfræðinga og var Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur formanni velferðarnefndar boðið að ávarpa fundinn og hlýða á kynningu á skýrslunni. Á fundinum tilkynnti Sigríður Ingibjörg að hún myndi taka upp málefni aldraðra í velferðarnefnd þegar Alþingi kæmi saman í haust og myndi hún bjóða félaginu að kynna þar inntak skýrslunnar. Og það gerði hún.
Á fundinn mættu fyrir hönd Fíh Aðalbjörg Finnbogadóttir, Anna Guðbjörg Gunnarsdóttir og Anný Lára Emilsdóttir. Kynntu þær helstu atriði skýrslunnar og svöruðu fyrirspurnum nefndarmanna. Fundinn sátu úr velferðarnefnd Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður nefndarinnar, Elsa Lára Arnardóttir, Ásmundur Friðriksson, Páll Valur Björnsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Unnur Brá Konráðsdóttir.
Eins og fram kom í skýrslunni var vinna félagsins kynnt Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra síðast liðið vor. Kallaði hann eftir tillögum hópsins og voru helstu þættir stefnunnar kynntir í heilbrigðisráðuneytinu á fundi með starfsmönnum ráðuneytisins þeim Heiði Margréti Björnsdóttur, Bryndísi Þorvaldadóttur og Elísu Hrund Gunnarsdóttur í lok mars.
Vonandi nær skýrslan að upplýsa ráðherra og alþingismenn um stöðu hjúkrunar-og heilbrigðisþjónustu aldraðra og gefa þeim hugmyndir um hvernig megi efla þjónustuna við aldraða sem búa í heimahúsum, á hjúkrunarheimilum eða dvelja á sjúkrahúsum.
Skýrsluna HJÚKRUNARÞJÓNUSTA ELDRA BORGARA. HORFT TIL FRAMTÍÐAR. Stefna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í hjúkrun og heilbrigðisþjónustu aldraðra til 2020 má finna hér