Þjónandi forysta samræmist vel hugmyndafræði hjúkrunar sem byggist á virðingu fyrir gildum um mannúð og siðgæði, ásamt því að setja velferð annarra framar eigin. Innan heilbrigðisþjónustunnar hafa rannsóknir á þjónandi forystu verið að ryðja sér til rúms, þá einkanlega á vægi þjónandi forystu, en einnig í tengslum við starfsánægju og kulnun í starfi og árangur eða gæði þjónustu. Rannsóknir hafa leitt í ljós almenna starfsánægju meðal hjúkrunarstarfsfólks og nýlegar rannsóknarniðurstöður um viðhorf til þjónandi forystu og starfsánægju við Sjúkrahúsið á Akureyri bera að sama brunni.
Einlægur áhugi á öðrum, sjálfsvitund og skýr framtíðarsýn
Almenn starfsánægja er meðal meirihluti hjúkrunarstarfsfólks við Sjúkrahúsið á Akureyri, markmið starfsins eru skýr, nýting fagþekkingar góð meðal starfsfólks og starfsfólk telur þjónustu við skjólstæðinga góða. Þetta er meðal annars þess sem kemur fram í rannsókninni „Árangur og forysta í hjúkrun: Viðhorf til þjónandi forystu, starfsánægju, starfstengdra þátta og gæða þjónustu“ sem Hulda Rafnsdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir og Sigrún Gunnarsdóttir framkvæmdu haustið 2011. Helstu niðurstöður eru að flestir þættir þjónandi forystu eru marktækt tengdir jákvæðri útkomu, það er, starfsánægju og gæðum þjónustunnar. Rannsóknir á þjónandi forystu í heilbrigðisþjónustu hafa verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár en hugtakið var sett fram af Robert K. Greenleaf í byrjun áttunda áratugarins sem ákveðin nálgun eða lífsstíl fyrir þá sem líta á leiðtogahlutverk sitt aðallega sem þjónustuhlutverk. Samkvæmt Greenleaf byggist þjónandi forystu á samspili þriggja meginþátta: Einlægur áhugi á öðrum, sjálfsvitund og skýr framtíðarsýn.
Samfélagsleg ábyrgð einkennandi meðal stjórnenda
Markmið rannsóknar þeirra Huldu, Ragnheiðar Hörpu og Sigrúnar var að kanna birtingamynd þjónandi forystu innan hjúkrunarsviða Sjúkrahússins á Akureyri. Starfsánægja var mæld, starfstengdir þættir og gæði þjónustu, ásamt tengslum þjónandi forystu við starfsánægju, starfstengda þætti og gæði þjónustu. Rannsóknin var þversniðskönnun með fyrirlögn spurningalista. Úrtakið var allir starfandi hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og ljósmæður á hjúkrunarsviði, alls 259 starfsmenn, og var svarhlutfallið 57,5%. Mikill meirihluti, eða 96%, voru ánægðir í starfi, tæp 95% töldu markmið starfsins vera skýr og ríflega 95% taldi nýtingu fagþekkingar vera góða. Tæplega níu af hverjum tíu töldu samvinnu við aðrar deildir vera góða og ríflega átta af hverju tíu voru ánægðir með upplýsingaflæði á vinnustað. Af undirþáttum þjónandi forystu mældist þátturinn samfélagsleg ábyrgð öflugastur. Þannig má álykta að stjórnendur hjúkrunarsviða Sjúkrahússins á Akureyri hafi heildarhagsmuni starfsmanna að leiðarljósi, hafi framtíðarsýn og leggi áherslu á að sýna þjónustulund og samfélagslega ábyrgð, en þetta eru þær áherslur sem felast í spurningum um samfélagslega ábyrgð. Þættirnir fyrirgefning, efling og ábyrgð röðuðust næst á eftir þættinum samfélagsleg ábyrgð, en þátturinn fyrirgefning felur í sér að stjórnendur eigi auðvelt með að fyrirgefa, læra af mistökum og samþykkja aðra eins og þeir eru.
Sú almenna starfsánægja sem mældist í þessari rannsókn styður fyrri rannsóknir og rennir stoðum undir gildi þess að efla þætti í stjórnun og skipulagi sjúkrahúsa sem endurspegla hugmyndafræði þjónandi forystu. Að sögn höfunda fela niðurstöðurnar í sér dýrmæt tækifæri fyrir starfsfólk og stjórnendur, bæði á SAk og annars staðar í heilbrigðisþjónustunni.
Heildartexti greinar er að finna hér