20.
mars 2016
Fjölbreytt framhaldsnám - breytingar á MS námi
Fimmtudaginn 7. apríl nk. kl. 16:00 verður opinn kynningarfundur og spjall um framhaldsnám í Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Vakin er athygli á breytingum á námskrá meistaranáms í Hjúkrunarfræðideild. Frá og með hausti 2016 býðst hjúkrunarfræðingum með fyrstu einkunn á BS prófi frá Háskóla Íslands og sambærilegu námi, nám til MS prófs þar sem metnar eru allt að 30 einingar úr BS námi þeirra. Með breytingunum geta nemendur nú lokið BS og MS námi á samtals fimm og hálfu ári í stað sex áður.
Veturinn 2016-2017 verður boðið upp á viðbótardiplómanám í gjörgæsluhjúkrun, hjúkrun aðgerðasjúklinga og í hjúkrunarstjórnun með áherslu á rekstur og mannauðsstjórnun. Auk meistaranáms á fyrrgreindum sérsviðum er í boði meistaranám í heilsugæsluhjúkrun, geðhjúkrun, barnahjúkrun, hjúkrun í langvinnum veikindum og á efri árum og öðrum klínískum sérsviðum. Einnig er í boði grunn- og meistaranám í ljósmóðurfræði og þverfræðilegt diplómanám í kynfræði. Áfram verður boðið upp á einstök námskeið á meistarastigi í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands.
Sífellt fleiri sækja um doktorsnám í Hjúkrunarfræðideild og eru hjúkrunarfræðingar hvattir til að kynna sér umsóknarferlið en tekið er við umsóknum allt árið.
Upplýsingar um námsframboðið má sjá á vef Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands http://hjukrun.hi.is.
Frekari upplýsingar veita verkefnastjórar framhaldsnáms Margrét Gunnarsdóttir maggagu@hi.is og Elín Helgadóttir elinh@hi.is.
Umsóknarfrestur um viðbótardiplómanám og meistaranám fyrir haustmisseri 2016 er til 15. apríl 2016 og fyrir vormisseri 2017 til 15. október 2016.