Hjukrun.is-print-version

Umsögn Fíh um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (A-deild)

RSSfréttir
4. október 2016

Fulltrúar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fóru í morgun á fund fjárlaganefndar Alþingis ásamt fulltrúum annarra stéttafélaga til að fylgja eftir umsögn félagsins um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, , nr. 1/1997, með síðari breytingum (breyting á A-deild sjóðsins), sbr. þingskj. nr. 1689, 873. mál.

Félagið mun halda áfram að ræða við ráðamenn og stjórnvöld um þessar viðamiklu breytingar sem eru eiga sér stað án aðkomu Fíh.  Markmið þeirrar vinnu verður að fá afgreiðslu frumvarpsins frestað og  að Fíh  verði boðið að taka þátt í þeirri vinnu sem snýr að breytingum á LSR. 
 

Samkvæmt upplýsingum þeim sem Fíh hefur aflað um hvað valdi því að félaginu hafi verið haldið utan umræddra viðræðna, þá byggir það á því að Fíh sé ekki bandalag eða samtök launþega, heldur stéttarfélag. Einungis heildarsamtökum ríkisstarfsmanna hafi verið boðið til viðræðna. Vísað hefur verið til ákvæða laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna í því sambandi, sérstaklega ákvæða um samningsaðild stéttarfélaga og bandalaga þeirra. Fíh mótmælir þessu og bendir á að ekkert í lögum nr. 94/1986 geri hlut bandalaga eða samtaka veigameiri að þessu leyti en stéttarfélaga sem standa utan slíkra heildarsamtaka. Stéttarfélög bera sömu samningsaðildina vegna kjarasamnings og bandalög og samtök samkvæmt ákvæðum laga nr. 94/1986.

Hér um afar stórt þingmál að ræða og þær breytingar sem ráðgerðar eru í því eru þess eðlis að þær hafa stórfelld áhrif á lífeyrisréttindi og greiðslur þeirra tuga þúsunda launþega sem tilheyra A-deild LSR. Þá er stefnt að því með frumvarpinu, samkvæmt því sem þar kemur fram, að mynda einn vinnumarkað á Íslandi með samræmdum kjörum. Í því felst að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eigi að aðlaga að því sem gerist á almennum vinnumarkaði. Þá er ætlunin að samhliða þessu verði launamunur milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins jafnaður. Með hliðsjón af þessu öllu hlýtur að teljast afar brýnt að frumvarpið sé vel ígrundað og unnið í sátt og samvinnu allra þeirra sem að opinberum vinnumarkaði koma. Vísað er aftur til þess sem að framan greinir, að fulltrúar þúsunda sjóðsfélaga að A-deild hafa ekki átt aðkomu að gerð samkomulags þess sem var aðdragandi framlagningar frumvarpsins.

Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum (breyting á A-deild sjóðsins), sbr. þingskj. nr. 1689, 873. mál.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála