Hjukrun.is-print-version

Yfirlýsing frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga vegna lagafrumvarps um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (A deild)

RSSfréttir
4. október 2016

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) gerir alvarlegar athugasemdir við efni lagafrumvarps um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (A-deild) sem nú liggur fyrir Alþingi. Félagið telur að um slíkar grundvallarbreytingar sé að ræða, að Alþingi sé ekki annar kostur en að fresta meðferð frumvarpsins fram yfir kosningar, fram að því að nýtt löggjafarþing tekur það til meðferðar. Engin aðkallandi nauðsyn er til þess að keyra þetta þingmál í gegn í flýti. Fíh hefur skilað inn umsögn um frumvarpið til fjárlaganefndar Alþingis og mætti ásamt fulltrúum annarra stéttafélaga á fund nefndarinnar í morgun þar sem meðal annars var farið yfir athugasemdir félagsins.

Frumvarpið er byggt á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins, ríkis og sveitarfélaga sem undirritað var í síðustu viku. Fíh var ekki gert kleift að eiga aðkomu með neinum hætti að gerð þess né að viðræðum og er frumvarpið ekki gert í umboði félagsins. Fíh lýsir yfir furðu á því að framkvæmdavaldið semji frumvarp byggt á samkomulagi, þegar fyrir liggur að einungis hluti þeirra stéttarfélaga sem eiga aðkomu að hinum opinbera vinnumarkaði áttu aðild að umræddu samkomulagi. Félaginu er því fyrirfram ekki ætlað sæti við það borð sem mun móta kjarastefnu til framtíðar þrátt fyrir að yfir tvö þúsund félagsmenn þess séu ríkisstarfsmenn. Ekkert í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna (nr. 94/1986) gerir að þessu leyti hlut bandalaga eða samtaka veigameiri en stéttarfélaga sem standa utan slíkra heildarsamtaka. Fíh er áfram haldið utan við aðkomu og samráð vegna þess sem efni frumvarpsins nær til, núna með lagaboði. Löggjafinn hefur áður ætlað hjúkrunarfræðingum sérstaka stöðu lagalega séð hvað lífeyrismál varðar og vísar félagið í því sambandi til þess að til eru sérstök lög um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga (nr 2/1997).

Lífeyrisréttindi eru eignarréttindi sem varin eru af eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár. Fíh telur einsýnt að lagabreytingar þær sem fyrirhugaðar eru í frumvarpinu muni brjóta verulega gegn þessum stjórnarskrárvarða eignarrétti. Ekki verður séð að fullkannað hafi verið af hálfu frumvarpshöfunda hvaða afleiðingar frumvarpið hafi gegn ákvæðum stjórnarskrár.

Fíh gerir eftirfarandi athugasemdir við atriði í frumvarpinu:

  1. Ríkisvaldið stendur í verulegri skuld við LSR vegna lífeyrisskuldbindinga. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það af hvaða ástæðum aðrar leiðir voru ekki í boði en þær sem lagðar eru til í frumvarpinu.
  2. Hjúkrunarfræðingar í A-deild LSR munu með breytingum á frumvarpinu missa skuldbindingu launagreiðanda á lífeyrisgreiðslum. Ekki er tryggt að allir hjúkrunarfræðingar eigi rétt á lífeyrisauka vegna mismunar á jafnri og aldurstengdri ávinnslu. Lífeyrisaldur er hækkaður í 67 ár og framtíðarfélagsmenn í Fíh munu búa við skert lífeyrissréttindi miðað við það sem nú er.
  3. Frumvarpið leiðir til þess að horfið er frá því að kveða á um föst réttindi sjóðsfélaga á grundvelli breytilegs iðgjalds í lögum líkt og nú er gert. Gert er ráð fyrir að stjórn sjóðsins leggi til breytingar á samþykktum sjóðsins þar sem nýtt réttindakerfi verður sett upp miðað við "fast iðgjald“. Ekki er ljóst hver réttindi sjóðsfélaga verða nákvæmlega í framtíðinni.
  4. Hjúkrunarfræðingar í A-deild LSR  sem starfa hjá öðrum launagreiðendum en ríkisaðilum munu ekki eiga rétt á lífeyrisauka vegna mismunar á jafnri og aldurtengdri ávinnslu nema launagreiðandi þeirra samþykki að greiða sérstakt iðgjald fyrir sjóðfélaga. Regla þessi tekur sem dæmi til launagreiðenda sem eru sjálfseignastofnanir eins og hjúkrunarheimili. Hjúkrunarfræðingar á þessum stofnunum munu eftir að frumvarpið verður að lögum standa berskjaldaðir gagnvart því hvort að þeir fái umræddan lífeyrisauka greiddan.

Í frumvarpinu eru sjónarmið höfð í frammi, sem réttlæta eiga samræmingu lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og hins opinbera. Fíh getur að sumu leyti tekið undir þau sjónarmið, en telur varasamt að samin séu frá opinberum starfsmönnum réttindi í lífeyrismálum án þess að fyrir liggi nákvæmlega hvað kemur í stað þeirra réttinda. Frumvarpið inniheldur engin skuldbindandi loforð af hálfu ríkisvaldsins um að launamunur verði jafnaður milli almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera. Ekkert kemur fram um það hvernig ætlunin er að jafna þennan launamun, eða hvort að allir fulltrúar ríkisstarfsmanna muni eiga aðkomu að þeirri vinnu.

Ef hjúkrunarfræðingar verða ekki með í ráðum eða hafðir með þegar kemur að því að jafna kjör á vinnumarkaði er líklegt að enn verr muni ganga að halda hjúkrunarfræðingum í starfi. Nýliðun verður erfiðari og skortur á hjúkrunarfræðingum, sem til staðar er í dag verður enn meiri. Mönnun í stöður hjúkrunarfræðinga á sjúkrahúsum, heilsugæslu og öðrum heilbrigðisstofnunum verður áfram erfið.

Hér er um afar stórt þingmál að ræða og þær breytingar sem ráðgerðar eru í því eru þess eðlis að þær hafa stórfelld áhrif á lífeyrisréttindi og greiðslur þeirra tugþúsunda launþega sem tilheyra A-deild LSR. Þá er stefnt að því með frumvarpinu, samkvæmt því sem þar kemur fram, að mynda einn vinnumarkað á Íslandi með samræmdum kjörum. Í því felst að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eigi að aðlaga að því sem gerist á almennum vinnumarkaði. Þá er ætlunin að samhliða þessu verði launamunur milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins jafnaður. Með hliðsjón af þessu öllu hlýtur að teljast afar brýnt að frumvarpið sé vel ígrundað og unnið í sátt og samvinnu allra þeirra sem að opinberum vinnumarkaði koma. Vísað er aftur til þess sem að framan greinir, að fulltrúar þúsunda sjóðsfélaga í A-deild LSR hafa ekki átt aðkomu að gerð samkomulags þess sem var aðdragandi framlagningar frumvarpsins.

Guðbjörg Pálsdóttir

formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála