Hjukrun.is-print-version

Hækkun launa ráðamanna sambærileg byrjunarlaunum hjúkrunarfræðinga

RSSfréttir
1. nóvember 2016
Algengustu byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga í dag eru 359.563 kr. á mánuði og er það svipað eða minna og þingmenn og ráðherrar eiga að hækka nú í launum á einu bretti samvkæmt úrskurði Kjararáðs. Settur var Gerðardómur á verkfall hjúkrunarfræðinga í fyrrasumar og gildir hann til 2019. Við lok hans verða byrjunarlaun 386.563 kr.

Enn er ríkjandi 20% óútskýrður launamunur á milli hjúkrunarfræðinga og stétta með sambærilega menntun og ábyrgð sem erfitt er að skýra. Eina haldbæra skýringin er sú að verið sé að borga konum lægri laun en körlum hjá hinu opinbera.

"Ég velti fyrir mér hvaða skilaboð er verið að gefa opinberum starfsmönnum, þ.á.m. hjúkrunarfræðingum með þessari ákvörðun og það strax í kjölfar kosninga. Hins vegar er gott að þeir sem starfar hjá ríkinu eigi að fá laun í samræmi við ábyrgð, stöðu og vinnuframlag og hlýtur það þá að þýða að launaboltinn eigi áfram að rúlla til annarra ríkisstarfsmanna. Þetta er hækkun sem hjúkrunarfræðingar tækju glaðir við.
Ekki er furða þó illa gangi að fá hjúkrunarfræðinga til að starfa í við hjúkrun hjá ríki og sveitafélögum þegar þetta er skilaboðin sem yfirvöld gefa." segir Guðbjörg Pálsdóttir, starfandi formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. 

"Í dag vantar mikinn fjölda hjúkrunarfræðinga til starfa í íslenskt heilbrigðiskerfi, flótti er úr stéttinni í önnur betur launuð og minna krefjandi störf. Það verður athyglisvert að sjá hvort næsta ríkisstjórn hefur áhuga og getu til að að bæta heilbrigðiskerfið með því að halda í hjúkrunarfræðinga og launa þá í samræmi við menntun, álag og ábyrgð."
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála