Hjukrun.is-print-version

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skorar á þingmenn að skapa sátt um breytingar á LSR frumvarpi

RSSfréttir
21. desember2016

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) skorar á þingmenn að samþykkja ekki frumvarp til breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eins og það liggur fyrir Alþingi.

Fíh hefur ásamt fjölda annarra skilað inn umsögn um frumvarpið þar sem gerðar eru athugasemdir við efnisatriði þess og lagðar fram tillögur að breytingum þannig að sátt geti myndast um málið. Fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarpið, að það hafi verið lagt fram nú að nýju þrátt fyrir að ekki hafi náðst nein niðurstaða í samtölum þeirra sem umrætt samkomulag gerðu. Hlýtur að vera grundvallaratriði, að breið sátt geti myndast um svo stórar breytingar á A-deild LSR. Þrátt fyrir þetta hefur meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar kosið að taka ekki tillit til athugasemda eða tillagna Fíh eða annarra um frumvarpið.

Fíh telur einsýnt að lagabreytingar þær sem fyrirhugaðar eru í frumvarpinu muni brjóta gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti sjóðsfélaga í A-deild LSR. Þetta á aðallega við það ákvæði frumvarpsins að Ríkissjóður ábyrgist einungis réttindi lífeyrisþega og sjóðfélaga sem orðnir eru 60 ára fyrir gildistöku nýrra samþykkta en ekki annarra sjóðsfélaga.  Einnig sú skerðing sem frumvarpið felur í sér  með aldurstengdri ávinnslu réttinda og hækkun lífeyrisaldurs. Ekki verður séð að fullkannað hafi verið af hálfu frumvarpshöfunda hvaða afleiðingar frumvarpið hafi gegn ákvæðum stjórnarskrár.

Fíh telur einnig að um slíkar grundvallarbreytingar sé að ræða, að Alþingi sé ekki annar kostur en að haga meðferð þess til samræmis við mikilvægi málsins. Engin aðkallandi nauðsyn er til þess að keyra þetta þingmál í gegn í flýti. Fíh telur rétt að frekari meðferð þingmálsins verði frestað, í þeim tilgangi að vandað verði betur til frumvarpssmíðarinnar og til að meta áhrif frumvarpsins á réttindi núverandi og framtíðar sjóðsfélaga. Jafnframt til þess að tryggja að sátt verði meðal hagsmunaaðila um efni frumvarpsins, enda hlýtur víðtæk sátt um svo stórt mál að vera nauðsynleg.

 

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála