Hjukrun.is-print-version

Hátíðarstyrkur úr Rannsókna- og vísindasjóði hjúkrunarfræðinga

RSSfréttir
12. maí 2017

Margrét Hrönn Svavarsdóttir, lektor við Háskóla Akureyrar, hlaut styrk að upphæð 500 þúsund krónur fyrir rannsókn sína Lífsstíll, áhættuþættir og sjálfsumönnun einstaklinga með kransæðasjúkdóm. Styrkurinn er veittur í tilefni þess að í dag, 12. maí, eru 30 ár liðin síðan María Finnsdóttur hjúkrunarfræðingur stofnaði sjóðinn.

Rannsóknir sýna að meðferð áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma og lífsstílsbreytingar draga úr þróun sjúkdómsins og auka lifun og heilsu en einnig að minnihluti einstaklinga nær meðferðarmarkmiðum um annars stigs forvarnir kransæðasjúkdóms. Þörf er á rannsóknum er kanna stöðu áhættuþátta hjá einstaklingum með sjúkdóminn og samspil þekkingar, heilsulæsis, sjálfsumönnunar, lífsstíls og lífsgæða en slík rannsókn hefur ekki áður verið framkvæmd á Íslandi að sögn Margrétar Hrannar.

Markmið rannsóknarinnar eru fjórþætt. Í fyrsta lagi að lýsa lífsstíl og áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma meðal einstaklinga með kransæðasjúkdóm og kanna hversu vel þeir ná markmiðum evrópsku hjartasamtakanna um annars stigs forvarnir kransæðasjúkdóma sex mánuðum eftir útskrift af sjúkrahúsi. Í öðru lagi að kanna hlutfall sjúklinga sem er vísað í hjartaendurhæfingu eftir sjúkrahúsdvöl vegna kransæðasjúkdóms og þátttöku sjúklinganna í endurhæfingu. Í þriðja lagi að lýsa lífsgæðum, heilsulæsi, sjálfsumönnun og þekkingu sjúklinganna á sjúkdómi sínum og skoða tengsl þessara þátta við áhættuþætti og bakgrunnsbreytur, og að lokum að forprófa íslenska útgáfu spurningalistans HeartQoL.

Niðurstöður rannsóknarinnar munu bæta við alþjóðlega þekkingu og gefa nýjar og mikilvægar upplýsingar um íslenska einstaklinga með kransæðasjúkdóm og vísbendingar um hvers konar stuðning og fræðslu hópurinn hefur helst þörf fyrir frá heilbrigðisstarfsfólki sem nýta má við skipulag þjónustu þeirra.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála