Hjukrun.is-print-version

Aðalfundur Fíh: Hjúkrunarfræðingar í framlínu á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu

RSSfréttir
19. maí 2017


Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga var haldinn í gær, 18. maí, á Grand Hótel. Um 100 félagsmenn mættu og var fundinum streymt á vefnum fyrir þá sem áttu þess ekki kost á að koma. Guðbjörg Pálsdóttir, sem tók formlega við formennsku félagsins, fór yfir fjölbreytta starfsemi félagsins og ber þar að nefna ánægjulega og lærdómsríka fundi með hjúkrunarfræðingum á landsbyggðinni. Afraksturinn var stofnun nýrra landsvæðadeilda sem var samþykkt einróma á fundinum, en starfsemi þeirra verður fyrst og fremst fagleg og félagsleg. Þá fjallaði Guðbjörg um skýrslu félagsins um vinnumarkað hjúkrunarfræðinga sem kynnt var helstu ráðamönnum þjóðarinnar. Það þurfi samstillt átak til að bæta núverandi stöðu og hvatti hún hjúkrunarfræðinga til að taka þátt í opinberri umræðu. „Við getum ákveðið að sitja hjá en við getum líka tekið frumkvæðið og haft áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru,“ sagði Guðbjörg. Fjöldi verkefna liggja fyrir og ber þar til dæmis að nefna vinnu við nýja vefsíðu félagsins sem verður opnuð nú í haust og óhætt að segja að stafræn ásýnd félagsins muni taka allverulegum breytingum. Rekstrarniðurstaða félagsins er góð og áætlanir hafa staðist að sögn Sólveigar Stefánsdóttur fjármálastjóra en hún kynnti ársreikninga félagsins.

Sigrún Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður Óttars Proppé heilbrigðismálaráðherra, ítrekaði mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólk ynnu saman og ættu samráð að heildrænni stefnu í heilbrigðismálum. Áætlað er að fjölga starfsfólki í framlínu heilbrigðisþjónustunnar og mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar séu þar á öllum sviðum heilbrigðisstéttarinnar.

Tvær ályktanir voru samþykktar á fundinum. Annars vegar um fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu, og hins vegar um starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Þrjár nýjar fagdeildir voru stofnaðar við einróma samþykkt fundargesta. Þær eru deild sérfræðinga í hjúkrun, deild vísindarannsakenda í hjúkrun og fagdeild bæklunarhjúkrunarfræðinga.

Nokkrar breytingar eru á stjórn félagsins. Stjórnin er nú skipuð sjö fulltrúum samkvæmt lögum félagsins frá 2016. Á fundinum þakkaði Guðbjörg fyrir það traust sem félagsmenn hafa borið til hennar. Hún þakkaði fráfarandi stjórn fyrir gott og óeigingjarnt starf, og starfsfólki félagsins fyrir bæði faglegan og persónulegan metnað í starfi.

Fundarstjóri var Eva Hjörtína Ólafsdóttir, kjarafulltrúi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála