Yfirlýsing frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála
Í gær 18.maí vísaði kærunefnd jafnréttismála frá tveimur málum sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) hafði höfðað fyrir hönd félagsmanna sinna sem eru hjúkrunardeildarstjórar á Landspítala og svæðisstjórar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Megin röksemd nefndarinnar fyrir frávísun er að kæran sé sett fram fyrir hönd tiltekins hóps en ekki einstaklinga. Konur séu jafnframt í störfum yfirlækna hjá Landspítala og svæðisstjóra hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og kæran sé sett fram fyrir hönd hóps án þess að fyrir liggi á hvern einstaklingsbundinn hátt brotið hafi verið gegn lögum nr. 10/2008. Þá eru ekki til staðar forsendur til að bera saman inntak umræddra starfa þar með talið með hliðsjón af ólíkum menntunarkröfum. Með vísan til ofanritaðs sé því óhjákvæmilegt að vísa kærunum frá nefndinni.
Fíh lýsir yfir miklum vonbrigðum með að kærunefnd jafnréttismála hafi ákveðið að vísa málinu frá á ofangreindum forsendum og mótmælir að málið sé vanreifað, og ekki skýrt að launamunur sé til staðar í þessum störfum sem kæran snýr að. Í lögum nr. 10/2008 segir í 6. grein að einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sem telja að ákvæði laga þessara hafi verið brotin á sér geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála. Í kjölfar þess að kærurnar bárust nefndinni, fékk Fíh þau svör að nefndin hefði ekki athugasemdir við það hvernig aðild væri háttað í kærunum og hefði því sent þær til umsagnar. Með hliðsjón af því gekk Fíh eðlilega út frá því að félaginu væri heimilt að fara með málið fyrir hönd félagsmanna með þeim hætti sem gert var, þ.e. án þess að þeir væru tilgreindir sérstaklega. Voru málin send í hefðbundið umsagnarferli og liggur nú frávísun fyrir fimm mánuðum síðar. Fíh harmar að túlkun nefndarinnar á m.a. 6. grein laganna verði til þess að ekki sé úrskurðað efnislega í málinu. Að mati Fíh liggur skýrt fyrir í gögnum og umsögnum í málinu að bæði Landspítali og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins eru að greiða hjúkrunarfræðingum mun lægri laun en læknum fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf.
Hjúkrunardeildarstjórar eru með 30% lægri laun en yfirlæknar á Landspítala. Undir þá heyra þrisvar sinnum fleiri starfsmenn en hjá yfirlæknum, þeir starfa eftir mjög sambærilegri starfslýsingu, meirihluti starfa þeirra snýr að stjórnun, þeir hafa sambærilegt ábyrgðarsvið og læknar og eru 95% konur. Megin röksemdarfærsla Landspítala fyrir launamun á yfirlæknum og hjúkrunardeildarstjórum er að læknar sinni 70-80% klínísku starfi, séu með lengri menntun, og læknar séu almennt með hærri laun en hjúkrunarfræðingar.
Svæðisstjórar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sinna sambærilegu stjórnunarstarfi hvort sem þeir eru læknar eða hjúkrunarfræðingar. Um er að ræða æðstu stjórnendur á hverri heilsugæslustöð sem bera sömu ábyrgð gagnvart framkvæmdastjórn heilsugæslunnar. Starfslýsing, starfsmannaábyrgð og fjárhagsleg ábyrgð svæðisstjóra er sú sama hvort sem þeir eru læknar eða hjúkrunarfræðingar. Þrátt fyrir það fá hjúkrunarfræðingar sem eru svæðisstjórar lægri laun en læknar sem eru svæðisstjórar. Sú undarlega staða er uppi hjá heilsugæslunni að svæðisstjóri sem er hjúkrunarfræðingur er á lægri launum en undirmaður hans, sem er fagstjóri lækninga. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hver launamunurinn er þar sem heilsugæslan hefur neitað að veita Fíh þær upplýsingar.
Allir svæðisstjórar sem eru hjúkrunarfræðingar hjá heilsugæslunni eru konur en svæðisstjórar sem eru læknar er blanda af körlum og konum. Ljóst er að langt er í land í jafnréttismálum á Íslandi. Stéttarfélögum er samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála ekki heimilt að fara með mál fyrir hönd sinna félagsmanna nema ljóst sé hverjir þeir eru. Erfitt getur verið fyrir starfsmenn að fara með mál fyrir kærunefnd jafnréttismála í eigin nafni telji þeir á sér brotið því flestir stjórnendur innan heilbrigðiskerfisins eru með fimm ára tímabundna ráðningu. Með því að fara í slík mál eru þeir að setja framtíð sína í óvissu.
Fíh mun halda áfram að leita leiða til þess að jafna launamun á stjórnendum hjá Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Félagið ítrekar vonbrigði með að kærunefnd jafnréttismála hafi ekki tekið málið til efnislegrar meðferðar, og þar með úrskurðað um hvort launamunur á hjúkrunarfræðingum og læknum í stjórnunarstöðum sé réttlætanlegur.
Guðbjörg Pálsdóttir
formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.