1.
júní 2017
Dagana 27. maí – 1. júní var haldin alþjóðleg ráðstefna á vegum ICN í Barcelona, og hafa aldrei áður jafnmargir hjúkrunarfræðingar sótt hana. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og að þessu sinni voru þátttakendur rúmlega 8.000 hjúkrunarfræðingar víðs vegar úr heiminum.
Samtök hjúkrunarfélaga á Norðurlöndum (SSN) hélt sérstaka móttöku fyrir norræna hjúkrunarfræðinga og var tilgangurinn að skapa vettvang til að koma saman og fagna ásamt því að deila reynslu og þekkingu. Umræðuefnin voru mörg: Áskoranir og tækifæri í starfi hjúkrunarfræðinga sem og möguleikar á að kynna fagið og hafa áhrif á heilbrigðismál, auk leiða til að sameina krafta hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum.
Sérstaklega var ánægjulegt að hitta og ræða við tvo hjúkrunarfræðinga frá Finnlandi og Danmörku sem báðir höfðu starfað hér á landi og höfðu enn mjög góð tök á íslenskunni.
Móttakan tókst í alla staði vel og var mikil ánægja með hana á meðal þeirra hundruða hjúkrunarfræðinga sem mættu. Meðal þeirra voru 11 hjúkrunarfræðingar frá Íslandi sem tóku bæði þátt í ráðstefnunni og móttökunni.