Aðalfundur hjúkrunarráðs SAk ályktaði eftirfarandi þann 19. október 2017:
Ályktun aðalfundar hjúkrunarráðs Sjúkrahússins á Akureyri um stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um mönnun, menntun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.
Hjúkrunarráð tekur undir skýrslu Ríkisendurskoðunar og telur mikilvægt að hraða nýliðun hjúkrunarfræðinga til að bregðast við skorti á hjúkrunarfræðingum innan íslensks heilbrigðiskerfis. Í skýrslunni kemur fram að 570 hjúkrunarfræðinga vanti til starfa í heilbrigðiskerfinu.
Verði ekki gripið til viðhlítandi ráðstafana gæti sá skortur haft óæskileg áhrif á gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga.
Hjúkrunarráð tekur undir ábendingar Ríkisendurskoðunar til Embættis landlæknis og tveggja ráðuneyta. Ríkisendurskoðun vill að Embætti landlæknis efli eftirlit með mönnun hjúkrunarfræðinga og setji viðurkennd viðmið um lágmarksmönnun. Því er beint til velferðarráðuneytisins að móta stefnu um mönnun hjúkrunarfræðinga innan heilbrigðisþjónustunnar til að tryggja gæði þjónustunnar. Tveimur ábendingum er beint til menntamálaráðuneytisins. Annars vegar að nemendum í hjúkrunarfræði verði fjölgað og hins vegar að endurskoðuð verði flokkun hjúkrunarfræðináms í reiknilíkani háskólanna.
Hjúkrunarráð hvetur stjórnvöld til að grípa til aðgerða án tafar. Nauðsynlegt er að bæta laun, starfsumhverfi og vinnutíma hjúkrunarfræðinga og tryggja þannig betri og öruggari þjónustu til framtíðar.
F.h. hjúkrunarráðs SAk
Sólveig Tryggvadóttir, formaður hjúkrunarráðs