Hjukrun.is-print-version

Doktorsvörn

RSSfréttir
11. desember2017

11. desember næstkomandi ver Rannveig Jóna Jónasdóttir doktorsritgerð sína "Þróun skipulagðrar, hjúkrunarstýrðrar eftirgæslu til sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild og prófun á áhrifum hennar". Leiðbeinendur eru  Gísli H. Sigurðsson prófessor og Helga Jónsdóttir prófessor.

Vörnin fer fram í Öskju sal 132 kl. 13:00 til 15:30.

Ágrip af rannsókn
Rannsóknin snýr að sjúklingum eftir útskrift af gjörgæsludeild. Þróuð var meðferð, byggð á samþættu, kerfisbundnu yfirliti. Meðferðin er skipulögð, hjúkrunarstýrð eftirgæsla og felst í reglubundnu eftirliti gjörgæsluhjúkrunarfræðinga með sjúklingunum frá útskrift af gjörgæsludeild að þremur mánuðum eftir útskrift þaðan. Prófuð eru áhrif meðferðarinnar á líkamlegt og sálrænt heilsufar sjúklinganna samanborið við sjúklinga sem fá hefðbundna þjónustu. Rannsóknin er framsýn samanburðarrannsókn og rannsóknaraðferðir megindlegar. Almennt líkamlegt og sálrænt heilsufar sjúklinganna var mælt frá því fyrir innlögn á gjörgæsludeild, við útskrift af legudeild og við þrjá, sex og tólf mánuði eftir útskrift af gjörgæsludeild. Því til viðbótar voru mæld einkenni kvíða, þunglyndis og áfallastreituröskunar frá útskrift af legudeild að tólf mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna ekki árangur skipulagðrar, hjúkrunarstýrðrar eftirgæslu á bætt líkamlegt og sálrænt heilsufar sjúklinganna fram yfir hefðbundna þjónustu. Hins vegar höfðu sjúklingar um einu ári síðar, í hvoru tveggja tilraunahópi og samanburðarhópi, ekki náð samsvarandi heilsufari og þeir höfðu fyrir innlögn á gjörgæsludeild. Einkenni kvíða og þunglyndis voru fremur væg en sjúklingar úr báðum hópum höfðu einkenni áfallastreituröskunar frá þremur að tólf mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild.     

Sjúklingar sem fá bráð og alvarleg veikindi og lifa af gjörgæsludvölina virðast glíma við langvarandi afleiðingar veikindanna og gjörgæslulegunnar á líkamlegt og sálrænt heilsufar sitt. Einkenni áfallastreituröskunar eru sláandi og langvarandi hjá þessum hópi sjúklinga. Frekari rannsóknir þarf til að þróa og mæla útkomu skipulagðrar, hjúkrunarstýrðrar eftirgæslu gjörgæslusjúklinga til að geta bætt líkamlegt og sálrænt heilsufar þeirra með markvissum aðgerðum. 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála