Hjukrun.is-print-version

Lífsstílsbreyting er þolinmæðisvinna

RSSfréttir
Á myndinni eru: Helga Margrét Clarke, Maríanna Csillag og Kristín Rún Friðriksdóttir
18. apríl 2018
Kristín Rún Friðriksdóttir hefur starfað síðastliðið ár sem hjúkrunarfræðingur í Heilsuborg, enda heillar hugmyndin um að hafa möguleika á að fyrirbyggja heilsubrest með forvörnum og fræðslu.

"Þegar ég var í náminu fengum við kynningu á lýðheilsufræðum og ég fann strax að þarna væri eitthvað fyrir mig. Fannst svo áhugavert að skoða hvað hefur áhrif á heilsu samfélagsins og alla þá þætti í kringum okkur sem hafa áhrif á heilsuna okkar til hins betra eða verra."
Kristín lauk hjúkrunarfræðinámi árið 2011 frá Háskóla Íslands, en bætti við sig diplóma í lýðheilsuvísindum árið 2015. "Þegar ég var í náminu fengum við kynningu á lýðheilsufræðum og ég fann strax að þarna væri eitthvað fyrir mig. Fannst svo áhugavert að skoða hvað hefur áhrif á heilsu samfélagsins og alla þá þætti í kringum okkur sem hafa áhrif á heilsuna okkar til hins betra eða verra." segir hún.

Í frítímanum syngur Kristín í kór og veit fátt skemmtilegra en að æfa söng. Hún er líka sælkeri, finnst gaman að elda góðan mat og fara út að borða. Kristín er gift Þorra Má hjúkrunarfræðingi og saman eiga þau Blædísi Völu fimm ára og Breka Hrafn tveggja ára.

Upphaflega lá leiðin í hjúkrunarfræðina til að látið gott af sér leiða en einnig vegna þess að hjúkrunarfræðin snertir mörg svið sem Kristínu þykja spennandi, bæði raunvísindin og hugvísindin. Hún hefur starfað á almennri göngudeild á Landspítala og Sjúkrahúsinu Vogi áður en hún hóf störf hjá Heilsuborg.

Mætum alltaf skjólstæðingnum þar sem hann er staddur

Kristín segir starfið í Heilsuborg er bæði fjölbreytt og ánægjulegt, þar er mikið um þverfaglega teymisvinnu og samstarfsfólkið skemmtilegt. Þar þarf bæði að miðla þekkingu, vinna með viðhorf og að styðja fólk í því að gera jákvæðar breytingar s.s. á matarvenjum og hreyfingu. Skjólstæðingnum er alltaf mætt þar sem hann er staddur, þannig að hann geri breytingar á sínum hraða og sínum forsendum.

"Þegar fólk nær að fóta sig og maður sér hvernig líðan þeirra hefur batnað þá er það ótrúlega gefandi."
Margir af skjólstæðingum hennar kljást við lífsstílstengd vandamál eins og offitu, sykursýki týpu II og háþrýsting, margir glíma við andlega vanlíðan og sumir upplifa skert lífsgæði. Hjá Heilsuborg er horft heildrænt á heilsu skjólstæðingsins og skoðað hvernig gæði svefns, streita og andleg líðan spilar inn í heilsuvenjur hans, því þessir þættir hafa áhrif á matarvenjur og hreyfingu. "Þetta getur verið þolinmæðisvinna þar sem lífsstílsbreytingin er alltaf langtímaferli og það er nær óhjákvæmilegt að inn á milli komi bakslög. En þegar fólk nær að fóta sig og maður sér hvernig líðan þeirra hefur batnað þá er það ótrúlega gefandi."

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála