21.
apríl 2018
Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands hafa sett fram aðgerðaráætlun sem miðar að því að hækka hlutfall karlmanna sem fara í nám í hjúkrunarfræði hér á landi umtalsvert. Hlutfall karlmanna í þessari stétt á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í hinum vestræna heimi, eða aðeins 2%, og er markmiðið að árið 2023 verði hlutfall karlmanna sem útskrifast orðið um 10%.
Gripið er til fjölbreyttra aðgerða í því skyni að ná þessu markmiði. Fræðsla er aukin, staða karla í hjúkrunarnámi er kortlögð með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni og í samvinnu við Jafnréttisstofu er námskrá rýnd með kynjagleraugum, kynning á náminu efld og loks má nefna að karlar sem sækja um nám í hjúkrunarfræði fá styrk vegna skráningargjalda skólagjalda.
Rannsóknir sýna að störf sem sinnt er af báðum kynjum leiða af sér betri árangur og þegar kynjahallinn er eins geigvænlegur og nú er, er rétt að allar leiðir séu skoðaðar sem geta rétt þann halla eitthvað af.
Ákvörðun stjórnar Fíh að athuga þá leið að styrkja karlmenn sem sækja um nám í hjúkrunarfræði vegna endurgreiðslu skráningargjalda er sértæk aðgerð með vísan í jafnréttislög. Fíh telur mikilvægt að reyna þessa leið. Aðgerðin er framkvæmd með vitund og vilja HÍ og HA sem fagna framtakinu. Kostnaðurinn við slíkt átak er lítill og verður nánast enginn ef það reynist árangurslítið en beri það árangur getur það leitt til afar jákvæðra breytinga í stéttinni, skjólstæðingum til hagsbóta.