Hjukrun.is-print-version

Kjarabarátta danskra hjúkrunarfræðinga og opinberra starfsmanna

RSSfréttir
24. apríl 2018

Danska hjúkrunarfélagið, og þar með hjúkrunarfræðingar, eru þátttakendur í harðri og víðtækri kjaradeildu sem stendur yfir í Danmörku. Kjaradeildan nær til um 800 þúsund opinberra starfsmanna þar sem hjúkrunarfræðingar eru stór hluti hópsins. Deila aðila snýst um launaþróun opinberra starfsmanna í samanburði við starfsmenn á almennum vinnumarkaði í Danmörku og er sú harðasta þar í landi í áraraðir.

"En løsning for alle"

Í Danmörku hefur um árabil verið til staðar fyrirkomulag á vinnumarkaði sem tryggir opinberum starfsmönnum samsvarandi launaþróun og starfsmenn á almennum markaði njóta. Fyrirkomulagið tryggir ekki sömu laun, en kemur í veg fyrir að annað hvort opinberi eða almenni markaðurinn verði leiðandi í launaþróun. Slagorð kjarabaráttu opinberra starfsmanna í Danmörku er : "EN LØSNING FOR ALLE". Nánari upplýsingar um deiluna og baráttur opinberra starfsmanna má finna hér: https://enloesningforalle.dk/

Í síðustu viku stefndi í víðtækt verkfall og vinnubann hjá opinberum starfsmönnum í Danmörku. Þann 17. apríl framlengdi ríkissáttasemjari samningaviðræður deiluaðila um tvær vikur og frestaði þar með víðtækum og fjölmennum verkföllum í opinbera geiranum og hjá sveitarfélögum. Er þetta í annað skiptið sem ríkissáttasemjari framlengir viðræðurnar og jafnframt í síðasta skiptið sem hann getur gripið til þess úrræðis, samkvæmt dönskum lögum. Ef það dugar ekki til brestur á með verkfalli frá og með 8. maí og verkbanni frá og með 12. maí. Aðgerðirnar yrðu afar víðtækar og myndu nánast lama danskt samfélag á mörgum sviðum.
Samningaviðræður gætu þó siglt í strand fyrir þann tíma að mati danska hjúkrunarfélagsins og annarra talsmanna opinberra starfsmanna. Ef slíkt gerist getur verkfall og verkbann skollið á fimm dögum síðar.

Mikil samheldni

Síðastliðna helgi voru stíf fundarhöld í deilunni og var það mat aðila að deilan gæti farið í báðar áttir þ.e. að annaðhvort væri lausn í sjónmáli eða slit yrði á viðræðum. Samningafundir hafa haldið áfram í byrjun vikunnar. Vonast samninganefndir að lausn verði fundin á deilunni. Danskir hjúkrunarfræðingar hafa sýnt mikla samheldni og stuðning í baráttunni fyrir bættum kjörum.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðingar styður baráttu kollega sinna í Danmörku og mun fylgjast náið með gangi mála.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála