18.
maí 2018
Um áramótin var niðurgreiðsla aukin á gjafabréfum í flug. Félagsmenn hafa tekið vel við sér og sala gjafabréfanna fyrstu 3 mánuði ársins var nánast sambærileg við allt árið í fyrra. Þetta er vissulega jákvætt og hefur greinilega fallið í kramið.
Orlofssjóðurinn er að greiða töluvert með þessum bréfum og því er ljóst að með sama áframhaldi mun ganga verulega á eigið fé sjóðsins áður en langt um líður. Stjórn orlofssjóðsins hefur því ákveðið að breyta örlítið úthlutunarreglum bréfanna þannig að hámarksfjöldi bréfa sem hver félagsmaður fær eru nú 4 bréf á ári.
Talningin gildir afturvirkt, þannig að þeir sem eru nú þegar búnir að kaupa sér 4 bréf eða fleiri munu ekki geta bætt við fleiri bréfum fyrr en á næsta ári. Von er á fleiri bréfum í sölu innan skamms undir þessum nýju úthlutunarformerkjum.