Við viljum benda þeim félagsmönnum sem hafa keypt sér afsláttarkort í Hvalfjarðargöng á eftirfarandi tilkynningu sem Spölur ehf. hefur sent frá sér:
Allar inneignir endurgreiddar!
Að gefnu tilefni skal það ítrekað enn og aftur að viðskiptavinir Spalar fá að sjálfsögðu greidda þá fjármuni sem þeir kunna að eiga inni á áskriftarreikningum sínum hjá félaginu þegar hætt verður að innheimta veggjöld haustið 2018.
Spölur mun líka endurgreiða afsláttarmiða sem viðskiptavinir kunna að eiga í fórum sínum þegar gjaldheimtu lýkur og endurgreiða skilagjald veglykla.
Fyrir hefur legið lögfest í meira en tvo áratugi að rekstrartíma Spalar í núverandi mynd lyki á árinu 2018 og að félagið myndi þá afhenda ríkinu Hvalfjarðargöngin skuldlaus.
Rekstri ganganna verður fram haldið í núverandi mynd þar til ríkið eignast mannvirkið í haust.
Allt sem áskrifendur og aðrir viðskiptavinir eiga inni verður endurgreitt, hvort sem eru fjármunir á áskriftarreikningum eða ónotaðir afsláttarmiðar. Breytir engu hvenær áskriftarferðir eru greiddar fyrir fram eða keyptir afsláttarmiðar á þeim tíma sem eftir lifir af rekstrartíma Spalar.
Mynd með frétt er eftir Jeff Hitchcock