Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) vill koma eftirfarandi á framfæri vegna fréttaflutnings og umræðu um mögulega nýja námsleið í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands fyrir fólk með annað háskólapróf.
Fíh leitar stöðugt leiða til að fjölga starfandi hjúkrunarfræðingum, hvort sem það felur í sér að fleiri séu menntaðir eða draga úr því að þeir leiti í önnur störf. Allt að 500 hjúkrunarfræðinga vantaði til starfa samkvæmt könnun Fíh frá 2016 og um 1000 hjúkrunarfræðingar störfuðu þá við annað en hjúkrun. Vísbendingar eru um að nú vanti jafnvel enn fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa.
Fíh vinnur að fjölgun hjúkrunarfræðinga á ýmsum sviðum. Má þar nefna samstarf við menntastofnanir hjúkrunarfræðinga og fagdeildir félagsins til að efla menntun og þekkingu þeirra. Einnig vinnur félagið að því að bæta starfsumhverfi, laun og kjör hjúkrunarfræðinga í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld og heilbrigðistofnanir. Því miður gengur það of hægt.
Á síðasta ári var hugmyndin um að gefa fólki með aðra háskólagráðu tækifæri til að læra hjúkrunarfræði rædd. Engin ákvörðun var tekin þá. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Fíh hefur, er nú unnið að skipulagningu nýrrar námsleiðar við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands sem felur í sér samþjöppun náms og sérkennslu á sambærilegan hátt og gert hefur verið erlendis. Fíh hefur ekki komið að vinnu að tillögum um breytingar á námi í hjúkrunarfræði, hvorki á núverandi námi eða námi í hjúkrunarfræði fyrir fólk með aðra háskólamenntun.
Fíh mun ávallt standa vörð um að nám hjúkrunarfræðinga standist þær kröfur sem um slíkt nám gilda, samkvæmt reglugerðum og Evróputilskipun um kröfur til náms í hjúkrunarfræði.