Hjukrun.is-print-version

Hjúkrunarfræðingar á Norðurlöndum kalla eftir pólitískum viðbrögðum gegn launaójöfnuði

RSSfréttir
26. september 2018

Hjúkrunarfræðingar frá öllum sex Norðurlöndunum hafa sameinast, undir merkjum Samtaka hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN = Sykeplejerskernes samarbejde i Norden), um ákall til ríkisstjórna sinna og stjórnmálamanna þess efnis að tekist verði á við ósanngjarnan launamun í þeim kvenna- og karlastörfum sem krefjast sambærilegrar menntunar.

Könnun á launakjörum á Norðurlöndum hefur leitt í ljós að launamunur karla og kvenna með menntun á bakkalárstigi er um 20 af hundraði. Á heildina litið eru laun í hefðbundnum kvennagreinum, svo sem hjúkrun, um það bil 80 prósent af launum í karlagreinum á svipuðu menntunarstigi.

Eitt af sérkennum norræna vinnumarkaðarins er að launamyndun á sér stað í viðræðum milli samningsaðila. Við berum mikla virðingu fyrir því fyrirkomulagi. En sagan hefur, því miður, kennt okkur að frjálsar samningaviðræður mega sín lítils við að leysa þann vanda sem felst í ójöfnum launum fyrir sambærilega menntun. Við stöndum því frammi fyrir pólitísku vandamáli sem á rætur sínar að rekja til þess tíma þegar ekki var litið á konur sem fyrirvinnur. Þess vegna krefjumst við – fyrir hönd 320.000 norrænna hjúkrunarfræðinga – viðbragða af hálfu stjórnvalda.

Þróun heilbrigðismála á 21. öldinni mun hafa það í för með sér að vægi hjúkrunarstarfa á eftir að aukast og er því skorturinn á hjúkrunarfræðingum á Norðurlöndunum þeim mun alvarlegri staðreynd. Stjórnmálamenn og stefnumótendur mega ekki horfa fram hjá því að laun og viðundandi starfsskilyrði gegna lykilhlutverki í að laða fólk að greininni og halda hjúkrunarfræðingum í starfi.
Ójöfn laun hjúkrunarfræðinga voru á dagskrá stofnfundar Samtaka hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum árið 1920. Nú – nærri 100 árum síðar – er kominn tími til þess að stjórnmálamenn sýni dug sinn í að takast á við ójöfnuð fortíðarinnar og veiti hjúkrunarfræðingum þau laun og þá virðingu sem þeir eiga skilið.

Kær kveðja frá sex norrænum hjúkrunarfélögum sem saman eru komin í Reykjavík í september 2018.

 


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála