Hjukrun.is-print-version

Undirbúningur komandi kjarasamninga

RSSfréttir
8. nóvember 2018

Nú styttist í að Gerðardómi í kjaramálum hjúkrunarfræðinga ljúki en hann fellur úr gildi í lok mars 2019. Þegar er hafin vinna fyrir komandi kjarasamninga hjá Fíh og er nauðsynlegt að vanda undirbúning þeirrar vinnu vel. Rafræn könnun verður send út núna í nóvember til starfandi hjúkrunarfræðinga og óskað eftir þeirra viðhorfum og væntingum. Unnið verður síðan að kröfugerðinni m.a. út frá niðurstöðunum og skiptir því miklu máli að sem flestir hjúkrunarfræðingar taki þátt í könnuninni svo niðurstaðan verði marktæk. Einnig verður fundað með hjúkrunarfræðingum víðs vegar um landið strax í byrjun næsta árs, þar sem kjaramálin verða rædd og væntanleg kröfugerð.

Ljóst er að fjölga þarf starfandi hjúkrunarfræðingum og það eru viss tímamót að íslenskir ráðamenn hafa viðurkennt vandann eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið ár. Um miðjan október skrifaði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra grein um mönnun í hjúkrun þar sem fram kemur að hún muni leggja sérstaka áherslu á aðgerðir til að tryggja mönnun hjúkrunarfræðinga til framtíðar. Þessu ber að fagna og hefur ráðherra þegar verið upplýstur um samstarfsvilja Fíh að þessu verkefni.

Ísland sker sig vel frá öðrum Norðurlöndum þegar skoðuð er samsetning launa hjúkrunarfræðinga. Hér á landi er yfirvinna 16% af hlutfalli heildarlauna, en á öðrum Norðurlöndum er hún 0-4%. Vert er að taka fram að í löndum eins og Noregi og Svíþjóð þar sem skorturinn á hjúkrunarfræðingum er mjög mikill, er yfirvinnuhlutfallið aðeins 3-4%. Hlutfall grunnlauna hjúkrunarfræðinga af heildarlaunum á Íslandi er aðeins 61% á meðan það er 72-83% hjá hinum Norðurlöndunum. Hér er sóknartækifæri fyrir okkur að fá grunnlaunin hækkuð á kostnað óhóflegrar yfirvinnu, sem seint getur talist vera fjölskylduvæn, góð fyrir heilsuna, bæta öryggi sjúklinga eða bera almennt vott um gott starfsumhverfi. Þó starfshlutfall hjúkrunarfræðinga á landsvísu sé að meðaltali 71%, þá er það almennt ekki raunverulegt vinnuframlag hjúkrunarfræðinga. Fróðlegt væri að fá hlutfall heildarvinnunnar eða ársverka hjúkrunarfræðinga frá atvinnurekendum en þær upplýsingar hefur Fíh því miður ekki.

Nú þegar er ljóst að breyta þarf launasamsetningu hjúkrunarfræðinga, stytta vinnuvikuna og meta menntun hjúkrunarfræðinga og ábyrgð til launa á sanngjarnan hátt. Það verður á brattann að sækja, en við gerum það ótrauð og í sameiningu. Nú sem fyrr skiptir samheldni hjúkrunarfræðinga miklu máli. Við verðum að standa saman, allir sem einn, til að ná árangri í kjarabaráttunni. Það er, eins og áður, á ábyrgð hvers og eins að efla samstöðuna.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála