Hjukrun.is-print-version

Spennandi ár framundan

RSSfréttir
19. desember2018

Ágætu hjúkrunarfræðingar.

Sífellt fleiri hjúkrunarfræðingar hafa haft samband við Fíh vegna vinnutengds álags og lýsa áhyggjum sínum yfir versnandi stöðu heilbrigðiskerfisins. Ég fagna því að hjúkrunarfræðingar hafi samband við okkur og deili sínum áhyggjum af stöðunni sem margir telja að geti ekki náð dýpri lægðum en nú þegar er náð. Máltækið lengi getur vont versnað virðist, því miður, eiga við hér.

Það er þó af hinu góða að fá þetta samtal, enda mikilvægt fyrir okkur að hafa skýra mynd af því hvernig hjúkrunarfræðingar upplifa vinnuumhverfið á hverri starfsstöð, skynja hvernig staðan er hverju sinni, og þá sérstaklega þegar hún er slæm. Þessar upplýsingar stuðla að því að við getum beitt okkur sem best í baráttunni fyrir bættu starfsvinnuumhverfi og öryggi í starfi í sinni víðustu mynd.

Ég hvet hjúkrunarfræðinga til að njóta líðandi stundar og halda áfram að finna jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Það er endalaust verkefni sem ekki er einfalt þegar álagið er mikið í starfi og krafan um yfirvinnustundir eykst jafnt og þétt. Þegar öllu er á botninn hvolft, verður það alltaf í höndum hvers og eins að setja sín eigin mörk út frá faglegum og persónulegum forsendum. Við skulum nýta okkur siðareglur hjúkrunarfræðinga sem oftar en ekki, geta hjálpað okkur við ákvarðanatöku er við koma starfinu.

Framundan er ótrúlega spennandi ár sem bæði verður litað kjarabaráttu og 100 ára afmæli Fíh. Tvö gífurlega ólík verkefni sem snerta alla félagsmenn á einn eða annan hátt. Einn af styrkleikum hjúkrunarfræðinga er m.a. að geta unnið að mismunandi tengdum verkefnum sem samt þurfa aðgreiningar á milli. Ég er því viss um að um leið og við berjumst fyrir bættum starfskjörum og leiðréttingu launa, getum við komið saman á hinum ýmsu skipulögðu viðburðum afmælisársins, glaðst og notið góðs félagsskapar.

Að lokum óska ég öllum hjúkrunarfræðingum og fjölskyldum þeirra, nær og fjær, gleðilegra jóla með þökk fyrir árið sem er að líða.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála