Hjukrun.is-print-version

Fátt skemmtilegra en að mæta í vinnuna

RSSfréttir
4. janúar 2019

Ásgeir Valur er 57 ára gamall hjúkrunarfræðingur, en áhuga hans á hjúkrun má rekja til þess þegar hann á sínum yngri árum fylgdist af aðdáun með störfum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða er hann heimsótti veika ömmu sína á sjúkrahús. Að loknu stúdentsprófi skráði hann sig í hjúkrunarfræði eftir að hafa reynt að komast inn í læknisfræðina án árangurs. Það var mikið gæfuspor, enda fann hann fljótt að í hjúkrun væri hann á réttri hillu.

Í vinnunni kynntist Ásgeir Valur eiginkonu sinni, Hildi Gunnarsdóttur sem er hans besti vinur. Hildur er sjúkraliði að mennt og saman eiga þau þrjár dætur: Þorbjörgu, Dagnýju og Önnu Lilju.

Í dag starfar hann sem sérfræðingur í svæfingahjúkrun á Landspítala, en kennsla er stór hluti af starfinu og þykir Ásgeiri Vali hún í senn áhugaverð og krefjandi. Hann hefur kennt sérhæfða endurlífgun, verið leiðbeinandi í herminámi bæði fyrir Landspítala og Háskóla Íslands, auk þess að koma að skipulagningu og umsjón diplómanáms í svæfingahjúkrun. Ásgeir Valur starfar einnig á menntadeild Landspítala og er jafnframt einn af stofnendum og eigandi Bráðaskólans en þar kennir hann ýmis konar önnur sérhæfð námskeið.


„Hjúkrun er gefandi og skemmtilegt starf þótt það sé oft vanmetið.  Fagið gerir miklar kröfur til faglegrar þekkingar, kunnáttu og færni."


Ásgeir Valur útskrifaðist með B.Sc. í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands vorið 1988 , lauk námi í svæfingahjúkrun frá Nýja hjúkrunarskólanum og HÍ 1990 og útskrifaðist með meistaragráðu frá HA og Royal College of Nursing árið 2002.
Tvö áhugamál skipa hæstan sess hjá Ásgeiri Vali, annars vegar áhugi á faglegum þáttum sem tengjast vinnunni og hins vegar áhugi á öllu því sem tengist síðari heimsstyrjöld og þá sérstaklega flugsögu. Ásgeir Valur segist hafa gaman af að lesa ýmis konar frásagnir úr stríðinu.

Kostir starfsins eru margir að sögn Ásgeirs Vals. „Hjúkrun er gefandi og skemmtilegt starf þótt það sé oft vanmetið. Fagið gerir miklar kröfur til faglegrar þekkingar, kunnáttu og færni. Ábyrgðin er mikil og lítið svigrúm er fyrir mistök. Það að starfa við hjúkrun felur í sér mikil samskipti við sjúklinga og aðstandendur. Starfið krefst þess einnig að maður gefi af sér, en staðreyndin er sú að oftar þiggur maður jafn mikið eða meira en maður gefur í þeim samskiptum. Hjúkrun er svo víðfeðmt fag og veitir endalausa möguleika á starfsvettvangi. Sem hjúkrunarfræðingur er hægt að fá vinnu nánast alls staðar“.

"Það er góð tilfinning að taka á móti sjúklingi, ávinna sér traust, veita honum stuðning og hjálpa viðkomandi að minnka kvíða sem flestir sjúklingar upplifa fyrir aðgerð."


Ásgeir Valur valdi svæfingahjúkrun sem sérgrein og hann segir fátt eða ekkert eins skemmtilegt og að mæta í vinnuna með frábæru samstarfsfólki á skurðstofunni og starfa við svæfingar. Þótt hans starfsferill hafi að mestu verið í svæfingahjúkrun velti hann einnig fyrir sér að starfa við geðhjúkrun þar sem hann hafði unnið á Kópavogshæli, en fann á fyrsta degi í verknámi í gjörgæsluhjúkrun hvar framtíð hans myndi liggja. Hann segir að það sé góð tilfinning að taka á móti sjúklingi, ávinna sér traust, veita honum stuðning og hjálpa viðkomandi að minnka kvíða sem flestir sjúklingar upplifa fyrir aðgerð. Mörg önnur undirbúningsverkefni fyrir aðgerðina eru einnig á hendi svæfingahjúkrunarfræðinga eins og uppsetning æðaleggs, barkaþræðing, vöktun sjúklings og greining og viðbrögð við vandamálum sem upp geta komið í aðgerðinni. Ásgeir Valur segir það mjög mikilvægt að skipuleggja svæfingu vel þannig að sjúklingur sofi vel í aðgerð og vakni vel. Bestu verðlaunin sem hægt er að hugsa sér að sögn Ásgeirs Vals er þegar allt gengur vel í svæfingunni, sjúklingurinn er ánægður, verkjalaus og vel vakandi þegar hann er kominn á vöknun. Helsta kostinn við starfið segir Ásgeir Valur þó vera samstarfsfólkið. Hann segir það spila stórt hlutverk á vinnustaðnum og á skurðstofunni eru samskiptin dýpri og með öðrum hætti en hann hefur kynnst annars staðar. „Oft fylgir starfinu mikil streita og álag, alvarlega bráðveikir sjúklingar sem þurfa á tafarlausri meðferð að halda. Taugar allra eru þandar til hins ýtrasta. Það er við þær aðstæður sem maður sér úr hverju fólk er búið til og fólk kynnist á annan hátt en við flest önnur störf.”

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála