Manda Jónsdóttir er þriðji ættliðurinn í kvenlegg sem leggur fyrir sig hjúkrun. Þrátt fyrir að hafa streist lengi vel á móti því að leggja fyrir sig hjúkrun og reynt að leggja eitt og annað fyrir sig þá var það ekki umflúið. „Ég sá bara að þetta var það eina rétta fyrir mig og ég hef svo sannarlega ekki séð eftir því,“ segir hún.
Ætlaði aldrei að vinna sem stjórnandi eða á Kleppi
Árið 2013 byrjaði hún að vinna sem aðstoðardeildarstjóri á geðsviði. Þar tók hún þátt í mjög krefjandi og fjölbreyttum breytingastjórnunarverkefnum og leiddi ýmis konar umbótastarf á deildinni. Í kjölfarið kviknaði áhuginn á stjórnun, ekki síst í ljósi þeirra fjölbreyttra verkefna sem stjórnendur á Landspítala standa frammi fyrir. „Ég hef líka verið einstaklega heppin en á deildinni vinnur yndislegt og metnaðarfullt starfsfólk sem nýtur þess að mæta til vinnu. Á deildinni ríkir frábær andi sem er dýrmætt og mikilvægt að varðveita. Það fyndna er að þegar ég útskrifaðist úr hjúkrun þá fullyrti ég að ég hefði engan áhuga á að starfa sem stjórnandi og að ég myndi sko aldrei vinna á Kleppi."
Manda, sem er 39 ára gömul, útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 2010. Hún lauk síðan MBA-námi við Háskólann í Reykjavík árið 2016 og starfar nú sem deildarstjóri á Sérhæfðri endurhæfingargeðdeild. Manda er í sambúð með Gunnari Sigurðssyni arkitekt og eiga þau þrjú börn, þau Hugin 11 ára, Orra 8 ára og Kríu Margréti 1 árs.
Þegar maður starfar við hjúkrun þá er enginn dagur eins og allir dagar uppfullir af gríðarlega fjölbreyttum verkefnum og áskorunum
Að mati hennar eru kostir starfsins óteljandi. „Það sem mér finnst skemmtilegast er fjölbreytileikinn í starfinu sjálfu og möguleikarnir sem opnast þegar þú hefur lokið námi. Hjúkrunarfræðinámið er verulega góð undirstaða undir ýmislegt annað nám og fann ég það sérstaklega þegar ég fór í MBA námið. Þegar maður starfar við hjúkrun þá er enginn dagur eins og allir dagar uppfullir af gríðarlega fjölbreyttum verkefnum og áskorunum. Mér finnst alltaf gaman að mæta í vinnuna og það er algjör lúxus!“
Manda hefur mikinn áhuga á öllu því sem tengist jóga og sjálfsrækt. Hún elskar að ferðast bæði innanlands og erlendis og stunda ýmis konar útvist. „Ég er með það á dagskránni að prófa sjósund en hef ekki enn drifið mig, enda fræg kuldaskræfa.“