Hjukrun.is-print-version

Bréf heilbrigðisráðherra vegna aðgerða til að styrkja mönnun hjúkrunarfræðinga gott fyrsta skref

RSSfréttir
30. janúar 2019

Þann 28. janúar sl. sendi Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra bréf til opinberra heilbrigðisstofnana þar sem þeim er falið að fjalla um og útfæra tilteknar aðgerðir sem hafa það markmið að laða fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa og styrkja mönnun á sviði hjúkrunar.  Jafnframt er lögð fram ósk um kostnaðarmatstofnana að einstökum aðgerðum þar sem það á við og eiga stofnanir að skila inn svari við þessum atriðum fyrir 16. febrúar næstkomandi. 

 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar því að íslensk stjórnvöld séu með þessu bréfi að hefja vinnu til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Félagið vonar að bréf ráðherra sé einungis fyrsta skrefið í snúa við þeim vanda sem hefur verið of lengi við lýði innan íslensks heilbrigðiskerfis og snýr að því að marga hjúkrunarfræðinga vantar til starfa. Framtíð íslensk heilbrigðiskerfis er undir að mati Fíh. Ef ekki verður gripið til rótækra aðgerða til að bæta mönnun hjúkrunarfræðinga mun ástandið innan íslenska heilbrigðiskerfis einungis halda áfram að versna þar sem hjúkrunarfræðingar eru ein af lykilstéttum íslensks heilbrigðiskerfis.  

 

Vandamálið er fjölþætt og krefst aðgerða í samræmi við það. Miðlægir kjarasamningar hjúkrunarfræðinga losna þegar gerðadómur fellur úr gildi þann 31. mars næstkomandi. Ljóst er að grípa þarf til stórtækra breytinga á miðlægum kjarasamningi hjúkrunarfræðinga til þess að bæta ástandið, laða fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa og tryggja að þeir hjúkrunarfræðingar sem nú starfa innan kerfisins haldist áfram í vinnu. Auk atriða eins og starfsumhverfis þarf að stórbæta laun og launakjör hjúkrunarfræðinga, gera þarf vinnutíma hjúkrunarfræðinga meira aðlagandi og fjölskylduvænni. Einnig þarf að eiga sér stað hugarfarsbreyting þegar kemur að hvíldartíma hjúkrunarfræðinga. 

 

Fíh mun koma að samningaborðinu við viðsemjendur sína á næstu mánuðum með opinn huga gagnvart nýjum hugmyndum. Von Fíh er að komandi kjarasamningar feli í sér grundvallarbreytingar á launa- og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og að þær leiði til þess að íslenskt heilbrigðiskerfi verði í framtíðinni betur mannað af vel menntuðum og færum hjúkrunarfræðingum. Kerfið verði þannig betur fært um að sinna því mikilvæga verkefni að bæta og stuðla að góðri heilsu íslensku þjóðarinnar.  Bréf heilbrigðisráðherra er að mati Fíh gott fyrsta skef í langri vegferð, en langt er að endamarkinu. 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála