Ágæti trúnaðarmaður.
Viltu hafa áhrif á laun og kjarasamninga hjúkrunarfræðinga?
Auglýst er eftir trúnaðarmönnum í trúnaðarmannaráð, og þurfa framboð að berast fyrir 1. mars 2019.
Hlutverk trúnaðarmannaráðs er að:
- Vera samninganefnd Fíh innan handar við gerð kjarasamninga.
- Vinna að undirbúningi kröfugerðar Fíh á hverjum tíma með starfsmönnum kjara- og réttindasviðs.
- Vinna að áherslumálum Fíh í kjaramálum.
- Gegna ráðgjafahlutverki, en ráðið kemur þó ekki beint að gerð kjarasamninga.
Í ráðinu sitja samtals 18 fulltrúar auk starfsmanna kjara- og réttindasviðs Fíh. Skipan í ráðið tekur mið af viðsemjendum Fíh í miðlægum kjarasamningum og skiptist hún þannig:
Frá ríki, stofnunum þar sem hjúkrunarfræðingar vinna samkvæmt kjarasamningi við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, sitja fulltrúar frá hverri heilbrigðisstofnun ríkisins.
- Sex fulltrúar Landspítala (einn frá hverju klínísku sviði)
- Einn frá Sjúkrahúsinu á Akureyri
- Einn af hverri heilbrigðisstofnun:
- Heilbrigðisstofnun Norðurlands
- Heilbrigðisstofnun Suðurlands
- Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
- Heilbrigðisstofnun Vesturlands
- Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
- Heilbrigðisstofnun Austurlands
- Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Frá öðrum viðsemjendum, þ.e. Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og Reykjalundi situr einn fulltrúi frá hverjum viðsemjanda.
Kosið er í ráðið á tveggja ára fresti fyrir 1. mars hvers árs sem stendur á oddatölu.
Tilnefningar frá stofnun eða deild skulu berast til kjararáðgjafa Fíh á netfangið eva@hjukrun.is fyrir 25. febrúar 2019.
Athugið að fyrir setu á fundum trúnaðarmannaráðs er greitt tímakaup skv. verklagsreglum Fíh og jafnframt er ferðakostnaður vegna fundarsóknar greiddur samkvæmt þeim reglum.