Hjukrun.is-print-version

Unnið á sjúkrahúsi frá 17 ára aldri

RSSfréttir
1. febrúar 2019

Edda Bryndís Örlygsdóttir hafði unnið sem sjúkraliði í yfir tuttugu ár þegar hún hóf nám í hjúkrunarfræði. Hún útskrifaðist árið 2008 frá Háskólanum á Akureyri og hefur unnið á skurðlækningadeild á Sjúkrahúsinu á Akureyri frá útskrift. 

Langaði að taka þátt í öllum hliðum umönnunar

Edda, sem er 55 ára gömul, hefur unnið á sjúkrahúsi frá því hún var 17 ára. Hún byrjaði sem sjúkraliðanemi og hefur allar götur síðan unnið við að hjúkra fólki. „Ég fékk mikla hvatningu frá vinnufélögum mínum að skella mér í hjúkrunarnámið og fann ég að mig langaði mikið að geta tekið þátt frá öllum hliðum í umönnun minna skjólstæðinga. Ég hef ávallt haft þor til að vera talsmaður minna skjólstæðinga og reyni eftir fremsta megni að gera það sem í mínu valdi stendur til að þeir fái sem besta umönnun,“ segir Edda. 

 

Að fá að taka þátt í gleði og sigrum fólks er dásamlegt, en einnig er það lærdómsríkt og þroskandi að hjálpa sjúklingum og aðstandendum að komast í gegnum erfiðar lífsreynslur
„Ég elska starfið mitt og mér hefur alltaf þótt gaman að fara í vinnuna. Það hefur aldrei borið skugga á það. Þrátt fyrir að starfið sé oft mjög krefjandi og erfitt er það að sama skapi mjög gefandi. Að fá að taka þátt í gleði og sigrum fólks er dásamlegt, en einnig er það lærdómsríkt og þroskandi að hjálpa sjúklingum og aðstandendum að komast í gegnum erfiðar lífsreynslur,“ segir hún. Fyrir utan að eiga skemmtilega og skilningsríka vinnufélaga, gerir það starfið auðveldara og meira gefandi. Edda er mikil félagsvera en í starfinu á hún ánægjuleg samskipti við fjölda manns og hentar því starfið henni vel. Vaktavinnan hentar henni sömuleiðis vel, en hún er í 80% vinnu, þar sem hún getur skipulagt vaktirnar fram í tímann. „Ég er ákaflega sátt við að hafa valið mér þennan starfsvettvang.“

„Þið missið mig því ekki í flugfreyjustarfið“

Edda er gift Ingólfi Erni Helgasyni og eiga þau saman tvær stúlkur og einn dreng. Áhugamál hennar er ýmis konar útivera og fer hún mikið í sund. Hún hefur einnig mjög gaman af því að ferðast þrátt fyrir „skelfilega flughræðslu“ eins og hún orðar það. „Þið missið mig því ekki í flugfreyjustarfið.“

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála