Rakel Björg Jónsdóttir hóf að vinna á Barnaspítalanum á námsárunum í hjúkrunarfræði og hefur unnið þar allar götur síðar. Rakel er sérfræðingur í nýburahjúkrun og hefur starfað á nýburagjörgæsludeild Vökudeild Barnaspítala Hringsins frá því að hún útskrifaðist úr hjúkrun árið 1996. Hún leggur nú stund á doktorsnám í hjúkrun.
Það var áhugi hennar á því að vinna við eitthvað tengt veikum börnum sem varð til þess að hjúkrunarfræði varð fyrir valinu. „Ég vissi svo sem ekki mikið um hjúkrun þegar ég byrjaði í náminu en varð mjög fljótt ánægð með val mitt. Ég fór að vinna á barnadeildinni í sumarvinnu eftir annað árið og hef eiginlega ekki farið út af Barnaspítalanum síðan þá.“ Hún segist hafa ráðið sig með miklum semingi á Vökudeildina strax eftir útskrift af því að það vantaði ekki á barnadeildina en hún varð strax heilluð og er það enn.
Áhugamálið varð að vinnu
Rakel hefur mikinn áhuga á faglegum málefnum og sækir gjarna ráðstefnur og námskeið til að efla sig í faginu. „Á náttborðinu mínu eru alltaf nokkrar fræðigreinar og bækur en eftir að ég fór í doktorsnám haustið 2017 er áhugamálið orðið að vinnu og nær allur frítími vel nýttur,“ segir hún og bætir við: „Annars þegar maður á þrjú börn sem eru á fullu í íþróttum þá fer frítíminn ansi mikið í að standa á hliðarlínunni á fótbolta og handboltamótum,“ en Rakel er í sambúð og á 12 ára tvíbura, stelpu og strák, og 8 ára stelpu og nýjustu fjölskyldumeðlimirnir eru tveir kettlingar.„Það er næstum alltaf gaman í vinnunni, að styðja og leiðbeina foreldrum sem eru að takast á við áskoranir í foreldrahlutverkinu er mjög gefandi“
Hún segir það skemmtilegasta við starfið vera endalausar áskoranir og tækifæri til að þróa sig og þroska sem fag- og fræðimaður. „Fjölbreytnin er svo mikil,“ segir hún. „Það er næstum alltaf gaman í vinnunni, að styðja og leiðbeina foreldrum sem eru að takast á við áskoranir í foreldrahlutverkinu er mjög gefandi. Síðan er það samstarfsfólkið, starfsfólk Vökudeildar eru upp til hópa einstakar manneskjur og frábært að fá að eyða vinnudeginum með þeim.“