Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson
15.
febrúar 2019
Eftir að hafa starfað lengi í björgunarsveit, við skyndihjálparkennslu og sjómennsku lá leið Þorsteins Jónssonar í hjúkrunarfræði. Ástæðan fyrir að hjúkrunarfræði varð fyrir valinu voru fjölbreyttir starfsmöguleikar. „Hvort heldur sem mig langaði að ferðast á ókunnar slóðir og sinna þróunarhjálp, nú eða starfa sem sjómaður við Íslandsstrendur - þá sá ég að hjúkrunarfræðinámið fangaði grunn á sviðum flestallra þátta í mannlegri tilveru.”
„Sá meira að segja hag í því að læra hjúkrunarfræði þegar ég var til sjós“
Þorsteinn var lengi vel óviss hvaða framtíðarstarf hann langaði að leggja fyrir sig. Hann fór til sjós um tíma en eftir að hafa kynnst mörgum öflugum hjúkrunarfræðingum í tengslum við björgunarsveitarstörf og við skyndihjálp kynntist hann fjölbreytileika hjúkrunarstarfsins. „Ég sá meira að segja hag í því að læra hjúkrunarfræði þegar ég var til sjós,” segir hann. „Hjúkrunarfræðinámið fangaði grunn á sviðum flestallra þátta í mannlegri tilveru.”Þorsteinn útskrifaðist úr hjúkrun 2002 og lauk meistaranámi fimm árum síðar, eða 2007. Hann er fæddur á Sauðárkróki 1976 og „því 18 ára með 25 ára reynslu,“ líkt og hann orðar það. Eftir útskrift starfaði hann á slysa- og bráðadeildinni í Fossvogi. Hann starfar núna á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut og á menntadeild Landspítala, auk þess að vera aðjúnkt í bráða- og gjörgæsluhjúkrun við hjúkrunarfræðideild Hí. Stór hluti af starfi hans snýr að kennslu og símenntun. „Ég er mikið tengdur herminámi í hermisetri Landspítala og einnig í færnisetri hjúkrunarfræðideildar Hí. Þessi þáttur í mínu starfi fer hratt vaxandi.“
„Líklegast klisja að segja þetta en fjölbreytileiki er klárlega það skemmtilegasta við starfið. Það eru alltaf ný viðfangsefni og áskoranir.“
Aðspurður hvað sé skemmtilegt við hjúkrunarstarfið svarar hann því til að möguleikarnir eru óendanlegir og fjölmörg tækifæri. „Líklegast klisja að segja þetta en fjölbreytileiki er klárlega það skemmtilegasta við starfið. Það eru alltaf ný viðfangsefni og áskoranir.“ Fræðasvið Þorsteins snýr að bráð- og alvarlega veikum sjúklingum sem að sögn hans er sambland af óvissu, hraða og spennu.