Hjukrun.is-print-version

Tekur stöku vaktir á Landspítalanum til að forðast fráhvarfseinkenni

RSSfréttir
22. febrúar 2019

„Ég er sannarlega þakklát í dag fyrir þessa ákvörðun því að fyrir utan hversu ánægð ég er með fagið mitt, þá eignaðist ég svo frábærar vinkonur sem í dag held ég sé skemmtilegasti hópur sem hægt er að komast í,“ segir Halldóra Hálfdánardóttir. Löngunin til að starfa innan heilbrigðisgeirans kviknaði hjá henni á menntaskólaárunum, en frá því að hún útskrifaðist úr hjúkrunarfræði 2000 hefur hún síðan lokið diplómanámi í krabbameinshjúkrun og meistaragráðu í hjúkrunarstjórnun frá Háskóla Íslands.

Starfsferillinn endurspeglar áhugasviðið

Halldóra hefur undanfarið ár verið deildarstjóri á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Hún hóf störf á krabbameinslækningadeild Landspítala, deild 11E, stuttu eftir útskrift. Hún varð síðan aðstoðardeildarstjóri frá 2004 og deildarstjóri frá 2012 til 2018. „Ég tek reyndar stöku vaktir þar ennþá til að halda mér aðeins við í klíníkinni og fá ekki of mikil fráhvarfseinkenni af því að vera ekki lengur á Landspítalanum. Eins og sjá má á starfsferlinum þá liggur áhugi minn í krabbameinshjúkrun og stjórnun,“ segir hún.

„Ég held ég hafi áttað mig á því í MH að mig langaði að starfa innan heilbrigðisgeirans en var þó ekkert endilega á því að hjúkrun væri málið. Ég fór því fyrst í klásus í læknisfræði en gekk ekki vel og langaði ekki að reyna aftur. Ég ákvað svo að fara haustið á eftir í klásus í hjúkrun og gekk ljómandi vel í því og líkaði strax vel.“ Halldóra kynntist eiginmanninum, Hilmari Þór Karlssyni, þegar hún var á fyrsta ári í hjúkrunarfræði, en hann var nemandi í viðskiptafræði, en á þeim tíma var viðskipta- og hjúkrunarfræði bæði kennd í Háskólabíói. Þau Hilmar eiga þrjú börn; Diljá 18 ára, Hálfdán 12 ára og Darra 10 ára.


„Á hverjum degi finnur maður fyrir þakklæti sjúklinga og þeirra aðstandenda og þá finnur maður hversu mikilvægt starfið er“

Halldóra svarar því til að helstu kostir starfsins sé fjölbreytnin. „Mitt sérsvið er innan krabbameinshjúkrunar og hefur mörgum fundist skrítið að ég hafi verið þetta lengi í svo krefjandi hjúkrun. Mér finnst það þvert á móti ekkert skrítið þar sem að innan krabbameinshjúkrunar eru endalausar áskoranir og verkefnin fjölbreytt. Á hverjum degi finnur maður fyrir þakklæti sjúklinga og þeirra aðstandenda og þá finnur maður hversu mikilvægt starfið er.“ Hún hefur verið virk innan fagdeildar krabbameinshjúkrunarfræðinga sem hefur veitt henni tækifæri til að vera í erlendu samstarfi. „Ég er nú í vinnuhópi innan EONS (European Oncology Nursing Society) þar sem okkar markmið er að vekja athygli á mikilvægi krabbameinshjúkrunar í þjónustu við þann sjúklingahóp, auk annarra verkefna. Mér finnst frábært að fá slíkt tækifæri og er það hvetjandi og eflir áhugann og fagmennskuna.“

Á leið í sjötta maraþonhlaupið

Virkni Halldóru endurspeglast ekki bara í störfum hennar með fagdeildinni, heldur er hún dugleg að spretta úr spori. „Ég held að ég sé dálítill hreyfifíkill en ég hef alltaf stundað íþróttir og undanfarin ár hafa langhlaup átt hug minn allan,“ en hún hefur hlaupið 5 maraþon og er að æfa fyrir sjötta maraþonið í Kaupmannahöfn í maí. Halldóra, sem er á 45. aldursári, segist þó aðeins byrjuð að finna fyrir aldrinum þannig að líkaminn þolir ekki eins vel langhlaup og hann gerði. Þess í stað eru hjólreiðar að komast meira á dagskrá ásamt annarri líkamsrækt. „Það góða við að hreyfa sig svona mikið er að geta kannski leyft sér aðeins meira í mat og drykk og má kannski segja að það að njóta slíkra lystisemda með fjölskyldu og vinum sé einnig áhugamál.“

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála