Hjukrun.is-print-version

Enginn dagur eins og nýjar áskoranir á hverjum degi

RSSfréttir
28. febrúar 2019

Ólafíu Kvaran þykir fátt leiðinlegra en að hafa lítið að gera en hún starfar sem hjúkrunarfræðingur hjá Læknahúsinu  í Domus Medica. Þar eru einkareknar skurðstofur með fjölbreytta starfsemi sem á vel við hana, enda fjölmörg verkefni að kljást við og dagarnir þjóta áfram.

Tvítug að aldri hafði hún ekki hugmynd hvað hún vildi starfa við í framtíðinni. „Ég valdi að fara í hjúkrunarfræði vegna þess að ég vissi að þegar ég yrði orðin hjúkrunarfræðingur myndu margir mismunandi og ólíkir starfsvettvangar standa mér til boða og mikið starfsöryggi og það hentaði mér afar vel. Því í sannleika sagt þá hafði ég ekki hugmynd um það rúmlega tvítug hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór og þá var hjúkrun mjög gott og skynsamt val.“

Hjúkrun er allt í senn líkamleg, andleg og félagsleg

Ólafía, sem er 48 ára gömul, útskrifaðist úr hjúkrunarfræði árið 1996 og hóf þá störf hjá Slysa- og bráðamóttökunni í Fossvogi. „Þar fann ég mig strax rosalega vel og sú starfsemi sem fer þar fram átti einstaklega vel við mig. Fjölbreytt, mikið að gera, enginn dagur eins, alltaf nýjar áskoranir og verkefni á hverri vakt. Öll sú reynsla sem ég fékk þar er ómetanleg og hefur reynst mér vel.“

Að mati hennar er fjölbreytileikinn það skemmtilegasta við starfið. „Ég er alltaf að sjá og heyra eitthvað nýtt og áhugavert. Ég hitti nýtt fólk alla daga sem alla þarf að nálgast á mismunandi vegu. Hjúkrun er svo margvísleg, hún er líkamleg, andleg, félagsleg og allt í bland og það finnst mér gaman og gefandi og aðal kostur starfsins.“


„Við erum þó öll sammála um það að skíðafrí eru langbestu og skemmtilegustu fríin enda alltaf eitthvað við að vera, geggjuð samvera og útivist“

Fyrir utan vinnu hefur hún unun af ferðalögum, að sjá og upplifa nýja staði og menningu. „Eins er líka óendanlega gaman að bralla eitthvað með vinkonum og vinahópum. Ég elska hittinga og að rækta vináttuna.“ Ólafía á þrjá syni með sambýlismanni sínum, þá Bjarka Þór 25 ára, Fannar Óla 20 ára og Friðleif 17 ára, og eru þau dugleg að skoða heiminn saman. „Við erum þó öll sammála um það að skíðafrí eru langbestu og skemmtilegustu fríin enda alltaf eitthvað við að vera, geggjuð samvera og útivist,“ segir hún og bætir við að þrátt fyrir það er „Ísland er samt besta land í heimi og hvergi betra að vera.“

Líkamsræktin snýst um að vera „í formi fyrir lífið“

Ólafía hefur einnig mikinn áhuga á hreyfingu og líkamsrækt og þykir fátt skemmtilegra en að hlaupa úti í náttúrunni, „ekki síst ein með sjálfri mér og alls konar pælingum.“ Hún hleypur gjarna í uppsveitum Hafnarfjarðar og Garðabæjar en þar er að finna frábærar og fallegar útivistarperlur. „Það eru algjör forrréttindi að geta nýtt sér þær,“ segir hún. Hún stundar einnig Bootcamp af kappi og hefur kynnst þar mikið af skemmtilegu fólki sem á það sameiginlegt að setja sér markmið og ögra sjálfu sér. „Ég sæki mikið í að geta æft þar með þeim. Þótt ég sé pínu keppnis og sé mikið að ögra mér og reyna nýja hluti þá snýst líkamsræktin mín aðallega um það að vera „í formi fyrir lífið“ sem sé að hafa getu til að gera allt sem lífið hefur upp á að bjóða. Að vera í góðu líkamlegu formi stuðlar að auknum lífsgæðum.“


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála