Hjukrun.is-print-version

Eiga ekki langt að sækja áhugann á hjúkrun

RSSfréttir
Systurnar Ingibjörg og Kristín Davíðsdætur
8. mars 2019

Systurnar Ingibjörg og Kristín Davíðsdætur útskrifuðust úr hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands með eins árs millibili. Þær eiga ekki langt að sækja áhugann á hjúkrun en móðir þeirra er hjúkrunarfræðingur.

Voru tíðir gestir hjá móður sinni á Landakoti

Ingibjörg, sem er 38 ára, fór í hjúkrunarfræði strax eftir menntaskóla og útskrifaðist 2005. „Þar hafði líklega mest áhrif að mamma er hjúkrunarfræðingur og var ég tíður gestur hjá henni á Landakoti hér áður fyrr.“ Ingibjörg stefndi á ljósmóðurfræði í upphafi námsins en eftir 3ja árið í námi hóf hún störf í Bráðamóttökunni og fann sig strax þar. Hún er aðstoðardeildarstjóri á Hjartagátt, en tekur auk þess vaktir á Bráðamóttöknni. 

Kristín, sem er tveimur árum eldri en Ingibjörg, útskrifaðist ári síðar, eða 2006. „Ég fór í hjúkrun þar sem bæði mamma mín og systir höfðu gert það. Mér þótti það bæði praktískt og áhugavert, auk sem sem menntunin býður upp á töluverðan fjölbreytileika hvað varðar starfsval.“ Kristín útskrifaðist með meistaragráðu í International Health við háskólann í Uppsala í Svíþjóð 2013, en hún hefur einnig lagt stund á nám í miðausturlandafræðum og arabísku. Hún starfar nú sem aðstoðardeildarstjóri á Smitsjúkdómadeild A-7. Þar fyrir utan hefur hún verið með námskeið um menningarhæfa heilbrigðisþjónustu á Landspítala undanfarin ár, auk þess að vinna að málefnum hælisleitenda innan Landspítala.

„... við erum alltaf að læra eitthvað nýtt, hvort sem er af samstarfsfólki eða skjólstæðingum okkar“
Systurnar eru báðar giftar og á Ingibjörg fjögur börn og Kristín tvö. Báðar hafa þær mikinn áhuga á útivist ýmiss konar og á meðan Kristín fer í göngur og rennir sér á skíðum, þá skellir Ingibjörg sér í crossfit eða fimleika. Þær eru sammála um að helstu kostirnir við starfið sé fjölbreytileikinn og hve áhugaverðir valmöguleikar hjúkrunarfræði bjóði upp á. Ingibjörg segir stöðugan lærdóm felast í starfinu, „við erum alltaf að læra eitthvað nýtt, hvort sem er af samstarfsfólki eða skjólstæðingum okkar.“ Kristín segist hafa mikinn áhuga á fólki almennt og „ekki síst jaðarsettum og minnihlutahópum sem eiga sér oft fáa málsvara í okkar samfélagi. Ein af stærstu áskorununum við að vinna með þeim hópum eru samskiptin. Þar getur reynt mikið á mann en það getur að sama skapi verið mjög gefandi þegar vel tekst til.“

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála