Það var ekki um margt að velja þegar Pálína Skjaldardóttir ákvað að fara í framhaldsnám eftir að hún hafði lokið námi í grunnskóla við Lindargötuskólann. Pálína hóf nám í Nýja hjúkrunarskólanum og útskrifaðist í desember 1978, eða fyrir rúmum 40 árum. Hún er afar sátt við þá ákvörðun og hefur alltaf fundist gaman að fara í vinnuna, enda telur hún hjúkrun vera eitt göfugasta starf sem til er. „Það er borin virðing fyrir hjúkrunarfræðingum í samfélaginu og ég er stolt af því að tilheyra þeim hópi.“
„Það leiðist engum í Vestmannaeyjum“
Pálína, sem er á 64. aldursári, hóf störf á augndeild Landakotsspítala eftir útskrift, sem jafnframt var þá blönduð lyf- og handlæknisdeild. Þar kynntist hún störfum St. Jósepssystra og segist hafa lært mikið af þeim. Í framhaldi af því flutti hún sig um set á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum og starfaði þar í tvö ár. Fjölbreytnin var þar í fyrirrúmi, en þar fékkst hún m.a. við kistulagningu, vinnu á skurðstofu og aðstoð á slysa- og fæðingardeild. „Þetta var mjög fjölbreytt og einkar skemtilegt starf. Seinna vann ég líka við heilsugæsluna í einn vetur. Það leiðist engum í Vestmannaeyjum.“
Hún flutti sig síðan um set og vann á Grensásdeild í fimm ár sem að sögn hennar var frábær vinnustaður sem einkenndist af faglegum vinnubrögðum. „Ég hélt að ég væri búin að finna minn stað í hjúkrun en síðan fór ég síðan að vinna á heila-og taugadeild/HNE, sem þá var A-5 á Borgarspítalanum. Þetta var mjög spennandi og góður vinnustaður.“ Hún byrjaði þar að taka aukavaktir á geðdeildinni, eða A-2, og ílengdist þar í fimm ár. „Ég kunni mjög vel við hjúkrunina á geðdeildinni. Þar var hugur minn og áhugi þessi ár og er reyndar enn.“
Hún segir Sóltún vera frábært hjúkrunarheimili þar sem skýr áhersla er lögð á líðan íbúanna og er virðing og persónulegar þarfir vistmanna og aðstandenda þeirra í fyrirrúmi.
Pálína hefur unnið tvö sumur á sjúkrahúsinu í Neskaupstað, önnur tvö á Egilsstöðum, tvö sumur á sjúkrahúsinu í Keflavík og á Reykjalundi í eitt ár. Hún hóf síðan störf á hjúkrunarheimilinu Sóltúni þegar það var opnað 2002 og hefur verið þar síðan. „Það skýrir eflaust áhuga minn á öldrunarhjúkrun, og þó einkum hjúkrun fólks með heilabilun, og þá sérstaklega Alzheimer sjúkdóminn,“ en Pálína hefur verið dugleg að viða að sér þekkingu um sjúkdóminn og sótt erlendar ráðstefnur og heimsótt hjúkrunarheimili á Norðurlöndum og í Evrópu í þeim tilgangi. Hún segir Sóltún vera frábært hjúkrunarheimili þar sem skýr áhersla er lögð á líðan íbúanna og er virðing og persónulegar þarfir vistmanna og aðstandenda þeirra í fyrirrúmi. „Þar hefur verið gott að starfa.“