Hjukrun.is-print-version

Úr sjávarútvegsfræði í hjúkrunarfræði

RSSfréttir
29. mars 2019

„Hjúkrunarfræðin var aldrei efst í huga mér þegar hugur minn stefndi til náms enda alinn upp í saltfiskverkun á Siglufirði,“ segir Þorsteinn Bjarnason hjúkrunarfræðingur aðspurður um af hverju hjúkrunarfræði varð fyrir valinu. Áhugi hans hafði þó lengi staðið til óhefðbundinna lækninga. „Eftir mislukkaða tilraun við sjávarútvegsfræði í HA langaði mig mikið að sækja um skóla í Svíþjóð við kírópraktík eða kínverska læknisfræði í Englandi. Þetta nám var mjög dýrt og mér fannst erfitt að fara svona langt frá fjölskyldu og vinum og guggnaði því á þessum áætlunum. Ég hafði kynnst hjúkrunarfræðinemunum við HA og leist ágætlega á námið. Þess vegna ákvað ég vorið 1991 að sækja um nám í hjúkrunarfræði við HA. Vinir mínir voru margir hverjir hissa á þessu og spurðu mig út í hvaða vitleysu ég væri nú að fara, svona kvennastarf og eintómar skeiningar.

Strax á fyrsta ári óx áhugi minn á faginu og ég ílengdist þar. Ég hafði aldrei unnið við umönnunarstörf og því var starfið á námsárunum oft erfitt og ólíkt öllu því sem ég hafði reynt áður. En eftir þessari ákvörðun minni hef ég aldrei séð enda starfið mjög fjölbreytt, þroskandi og skemmtilegt,“ en hann útskrifaðist 1995 og starfar nú bæði sem skólaheilsugæsluhjúkrunarfræðingur við Grunnskóla Fjallabyggðar og hjúkrunarfræðingur á deild hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Fjallabyggð. „Það er enginn dagur eins og alltaf eitthvað nýtt að takast á við. Það er mikil fjölbreytni og mér leiðist aldrei,“ segir hann. Þá segir hann starfið vera góðan vettvang til að gefa af sér og þroskast í starfi.

 

Hefur lokið framhaldsstigi í klassískum söng

Þorsteinn, sem er 49 ára, hefur mikinn áhuga á söng og tónlist en hann lærði klassískan söng við Tónlistarskóla Siglufjarðar og síðar Tónlistarskóla Fjallabyggðar og lauk framhaldsstigi í klassískum söng árið 2013 frá Tónlistarskóla Fallabyggðar. Þá er hann áhugamaður um útivist, göngur, garðrækt og trjáplöntur. Hann er giftur Aafke Roelfs sjúkraþjálfara, og eiga þau tvö börn, þau Láru fædda 1999 og Janus fæddan 2001.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála