Mercy Washington útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir árið 1987 í Indlandi. Hún sérhæfði sig síðan í krabbameinshjúkrun og vann við það í sex ár. Hún flutti til Íslands 1995 og vann á krabbameinslækningadeild Landspítala frá 1998-2001. Frá árinu 2004 hefur hún unnið á hjúkrunardeildinni Ljósheimum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Mercy, sem er 54 ára, er gift William, sem einnig er indverskur, og eiga þau tvo syni.
Mikið ævintýri að koma til Íslands
Forsaga þess að Mercy kom hingað til lands er sú að maðurinn hennar, William, flutti til Íslands 1991 en hann átti ættingja sem bjuggu hér fyrir. Þau Mercy og William voru kunningjar á þessum tíma og fjölskylduvinir. „Hann kom seinna til Indlands og bað mig að giftast sér og koma til Íslands. Mér fannst þetta mikið ævintýri og hér hefur mér liðið vel.” Þau giftu sig í Selfosskirkju og hafa verið búsett á Selfossi síðan. Mercy segir að margt sé ólíkt á milli Íslands og Indlands. Sjúkrahúsin á Indlandi eru mjög stór. Þar eru annars vegar ríkisspítalar, þar sem mikill skortur er á tækjum og tólum, og hins vegar einkaspítalar en þar er nóg af öllu að sögn hennar. Hún lærði til hjúkrunar á sjúkrahúsinu Victoria Hospital Bangalore sem var mjög vel búið tækjum enda háskólasjúkrahús. „En hjúkrun er í eðli sínu eins alls staðar,” segir hún.
„Ég elska starfið mitt og mér líður alltaf vel í vinnunni minni og fer heim í lok dags oft þreytt en ánægð.“
Fyrirmynd Mercy var móðir hennar, sem einnig var hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. „Minningar minar um starf hennar á vistheimili Rauða krossins fyrir stríðshrjáða hermenn (Red Cross home for the disabled) hafði mikil áhrif á mig þar sem hún annaðist vistmenn af mikilli gæsku og kunnáttu. Það varð til þess að ég valdi mér þetta lífsstarf. Ég elska starfið mitt og mér líður alltaf vel í vinnunni minni og fer heim í lok dags oft þreytt en ánægð. Ég reyni að leggja mig fram við að ná til sjúklinganna og aðstandenda þeirra sem mér finnst mjög mikilvægt,“ segir hún.
Helstu áhugamál Mercy er heimili hennar og fjölskylda, og svo er hún ástríðukokkur. „Ég hef ástríðu fyrir að elda góðan mat, og þá helst indverskan,“ en hún tekur stundum að sér að elda mat fyrir veislur.