Elín Markúsdóttir flutti til Kaupmannahafnar árið 2002 ásamt eiginmanninum en hann var að hefja nám þar. Elín var þá komin 7 vikur á leið með þeirra fyrsta barn. „Við fluttum út með sitthvora ferðatöskuna. Ég var nýbúin að klára stúdentsprófið og hafði ekki hugmynd um hvað mig langaði að læra. Ég átti vinkonu úti sem var í hjúkrunarfræði og systir mín var einnig nýbyrjuð í hjúkrun á Íslandi. Mér þótti þetta áhugavert og hugsaði með mér að þetta væri praktíst nám sem hægt væri að vinna við hvar sem er í heiminum,“ segir Elín. Hún tók sér góðan tíma í námið en þegar hún útskrifaðist í janúar 2011 var hún orðin þriggja barna móðir.
„Veit aldrei hverju maður getur átt von á bráðamóttöku barna“
Á þessum tíma var hægara sagt en gert að fá vinnu í Kaupmannahöfn en mikið atvinnuleysi var meðal nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga að sögn Elínar. Hún vann aðallega í heimahjúkrun þar til hún flutti til Íslands haustið 2011. Þegar heim kom byrjaði hún að vinna á bráðamóttöku barna og hefur unnið þar síðan. „Það er góður starfsandi á deildinni og samstarfsfólkið frábært.“ Hún segir kostina við starfið á bráðamóttöku barna vera þá hún er alltaf að læra eitthvað nýtt. „Starfið er fjölbreytt og enginn dagur er eins. Maður veit í raun aldrei hverju maður getur átt von, en skjólstæðingar bráðamóttökunnar eru allt frá nýburum upp í 18 ára ungmenni svo dagarnir eru aldrei eins,“ segir hún.
Það getur því stundum verið púsla að láta hlutina ganga upp verandi bæði í vaktavinnu og eiga börn sem stunda íþróttir af kappi.
Elín, sem er 38 ára, á fjögur börn á aldrinum 6-16 ára. „Ég er gift rafmagnsverkfræðingi sem vinnur einnig vaktavinnu. Það getur því stundum verið púsla að láta hlutina ganga upp verandi bæði í vaktavinnu og eiga börn sem stunda íþróttir af kappi. En á móti eru líka kostir við vaktavinnuna þar sem oft er vaktafrí í miðri viku og þá gefst oft góður tími til að sinna praktískum hlutum.“
Í frítíma segist Elín vilja sinna fjölskyldunni og vinum og hafa þau gaman af því að ferðast. „Við förum reglulega á skíði og svo reyni ég að hreyfa mig daglega,“ en hún æfir í Boot Camp í Sporthúsinu og stundar einnig útihlaup.