15.
apríl 2019
Miðlægir kjarasamningar hjúkrunarfræðinga losnuðu í lok mars 2019. Samningaviðræður hafa farið hægt af stað, en viðræður eru hafnar við Reykjavíkurborg og ríkið. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) semur við fimm aðila um miðlægan kjarasamning: Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs (ríki), Reykjalund, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), Reykjavíkurborg og Samband sveitarfélaga. Samningar við Reykjalund og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu eru nánast samhljóða ríkissamningnum og hefjast viðræður við þá aðila oftast eftir að samið hefur verið við ríkið. Samningar við Reykjavíkurborg og Samband sveitarfélaga eru ólíkir ríkissamningnum að því leyti að í þeim er samið bæði um almenn réttindi, starfsheiti, persónubundna þætti og launaröðun. Hjá ríkinu fjallar miðlægur kjarasamningur m.a. um launatöflur, taxtahækkanir, vinnutíma, vaktaálag og réttindi eins og orlof, veikindi og uppsagnarfrest. Samhliða þessum samningum eru í gildi stofnanasamningar við einstaka stofnanir sem fela í sér launaröðun, röðun í starfsheiti og ákvæði um persónubundna þætti.
Undirbúningur fyrir kjarasamninga hefur staðið undanfarna mánuði. Hann hefur falist í gerð könnunar meðal hjúkrunarfræðinga, fundarherferð, skipun samninganefnda og trúnaðarmannaráðs og samningu kröfugerðar.
Könnun um viðhorf og væntingar til kjarasamninga
Framkvæmd var könnun meðal hjúkrunarfræðinga í nóvember 2018 þar sem þeir voru spurðir um viðhorf og áherslur fyrir komandi kjarasamningsviðræður. Þátttaka í könnuninni var mjög góð en um 2.100 hjúkrunarfræðingar tóku þátt eða rúm 75% félagsmanna. Niðurstöðurnar voru nokkuð samhljóða. Aðeins 8% hjúkrunarfræðinga eru sáttir við launin sín. Þegar spurt var um hvaða atriði ætti að leggja áherslu á við næstu kjarasamninga var hækkun dagvinnulauna oftast sett í fyrsta val, stytting vinnuviku oftast í annað val og hækkun greiðslu vegna vaktaálags sett oftast í þriðja val. Þá kom sterkt fram að gera þarf hjúkrunarfræðingum kleift að starfa í vaktavinnu og að 80% vinna á vöktum teljist sem 100% vinna. Hjúkrunarfræðingar virðast vera misáhugasamir um breytingar á vinnutíma og breyttar greiðslur fyrir yfirvinnu. Talsverður munur var á viðhorfi almennra hjúkrunarfræðinga og stjórnenda, eins þeirra sem vinna vaktavinnu og dagvinnu. Stjórnendur og þeir sem vinna dagvinnu eru almennt meira fylgjandi breytingum á vinnutíma og yfirvinnu. Stærstur hluti hjúkrunarfræðinga eða 77% fannst fremur eða mjög mikilvægt að hvíldartími á milli vakta væri að minnsta kosti 11 klst. Aðrir þættir sem fram komu í könnuninni voru t.d. að hjúkrunarfræðingar vilja að menntun sé sá þáttur sem ráði helst launum, mönnun er sá þáttur sem þeir vilja sjá batna í starfsumhverfi og að sí- og endurmenntun teljist til vinnutíma.Fundarherferð
Í aðdraganda komandi kjarasamningaviðræðna hélt Fíh 16 fundi um allt land með hjúkrunarfræðingum. Tilgangur fundanna var að ræða helstu áherslur kröfugerðar og að kynna niðurstöður kjarakönnunar sem gerð var í nóvember. Starfsmenn kjara- og réttindasviðs héldu fundina ásamt formanni félagsins. Mjög gagnlegt og fræðandi var fyrir starfsmenn félagsins að hitta hjúkrunarfræðinga, eiga við þá samræður um kjaramál og komandi kjarasamninga. Á þeim kom fram að áherslur hjúkrunarfræðinga eru nokkuð samhljóða þrátt fyrir að hópurinn sé ólíkur og starfsumhverfið með misjöfnum hætti. Hækka þarf dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga, stytta vinnuvikuna og bæta starfsumhverfi. Leita þarf nýrra lausna til þess að takast á við þann vanda sem orðinn er í íslensku heilbrigðiskerfi þar sem marga hjúkrunarfræðinga vantar til starfa. Fundirnir voru vel sóttir og virðist sterk samstaða vera meðal hjúkrunarfræðinga fyrir komandi kjarasamninga.Kröfugerð og samninganefndir
Kröfugerð Fíh hefur verið í vinnslu sl. mánuði og nýttist þar vel niðurstaða kjarakönnunarinnar sem og eftirfylgd hennar með fundarherferðinni. Kröfugerðin var unnin af starfsmönnum kjara- og réttindasviðs í samstarfi við samninganefndir félagsins.Markmið Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í samningaviðræðum eru:
- Laun, vinnutími og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga sé með þeim hætti að þeir vilji vinna innan íslenska heilbrigðiskerfisins.
- Tilgangur stofnanasamninga verði skýr og fjármögnun þeirra tryggð.
- Fjármagn til jafnlaunavottunar verði tryggt.
- Sí- og endurmenntun hjúkrunarfræðinga verði hluti af vinnutíma.
- Nýr kjarasamningur feli í sér breytingar á tryggingarkafla og veikindakafla.
- Útbúin verði mönnunarviðmið fyrir hjúkrunarfræðinga sem nái yfir mismunandi stig heilbrigðisþjónustu.
- Nýr kjarasamningur taki við af gerðardómi. Lengd samnings verði sambærileg við samninga annarra aðila á vinnumarkaði.
Í mars stóð kjara- og réttindasvið Fíh fyrir námskeiði í samningafærni fyrir samninganefndir félagsins í samstarfi við Þóru Christiansen, aðjunkt við HÍ . Trúnaðarmönnum og trúnaðarmannaráði var boðið að taka þátt í námskeiðinu. Námskeiðið var vel sótt og var það gagnlegt og lærdómsríkt.
Staða viðræðna í byrjun apríl
Samningaviðræður fara hægt af stað vegna stöðu viðræðna á almennum markaði en samningaviðræður við Reykjavíkurborg og samninganefnd ríkisins eru farnar af stað. Á fyrstu fundum með samningsaðilum hafa helstu markmið og áherslur Fíh í komandi samningaviðræðum verið kynntar.Viðræður eru ekki hafnar við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Samband sveitarfélaga og Reykjalund. Fíh mun leitast við að upplýsa félagmenn um gang mála eftir fremsta megni og setja upplýsingar eftir því sem við á inn á vefsvæði félagsins og samfélagsmiðla. Á meðan á samningaferlinu stendur ríkir fullur trúnaður og traust innan samninganefndanna og þar af leiðandi verður ekki hægt að greina ítarlega frá framgangi viðræðna.
Leiðin að kjarasamningi
- Undirbúningur og greining á áherslum félagsmanna.
- Rökstudd kröfugerð útbúin. Markmið og óskaniðurstaða. Háleit en raunsæ markmið byggð á hagsmunum.
- Skrifað undir viðræðuáætlun, samið um hvernig skuli samið. Áætlun um skipulag og fyrirkomulag viðræðna.
- Samningafundir, áherslur beggja aðila ræddar. Deilunni er vísað til ríkissáttasemjara ef samninganefnd telur að árangur náist ekki í samningaviðræðum eða ef viðræður slitna.
- Áherslur þrengdar og náð saman. Framkvæmd og undirritun á samningi.
- Félagsmenn kjósa um samning innan fjögurra vikna. Ef samningur er felldur er kosið áfram um frekari aðgerðir eða sest aftur að samningaborðinu.
Staða stofnanasamninga
Stofnanasamningar eru annars eðlis en miðlægir kjarasamningar og hafa enga endadagsetningu. Þeir eru í gildi þar til nýr tekur við óháð miðlægum samningum. Á árinu voru gerðir fimm nýir stofnanasamningar við heilbrigðisstofnanir. Hjá ríki voru endurnýjaðir stofnanasamningar við Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Landspítala. Í þessum samningum voru gerðar ýmsar breytingar frá eldri samningum. Til að mynda var sett inn ákvæði um starfsþróun hjúkrunarfræðinga á heilsugæslunni, launaröðun aðlöguð að raunveruleika á HVE og HSN en einnig nýtt fjármagn úr bókun 3 í dómssátt Fíh fyrir gerðardómi til þess að hækka grunnröðun. Hjá Landspítala var launasetning í samningnum aðlöguð að þeim launum sem raunverulega er verið að greiða. Í stofnanasamningi við Heilbrigðistofnun Suðurnesja er ákvæði um tilraunverkefni sem gengur út á að hækka starfshlutfall hjúkrunarfræðinga og minnka breytilega yfirvinnu með því að greiða hærri laun fyrir hærra starfshlutfall. Einnig gerðu hjúkrunarheimilin Eir, Hamrar og Skjól hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu nýjan stofnanasamning. Í gangi eru nú stofnanasamningsviðræður við Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Vonir standa til þess að hægt verði að ljúka endurnýjun þessara samninga á vorönn 2019 eða fljótlega eftir að lokið er við gerð miðlægs kjarasamnings.Í kjarasamningi 2015 var samið um starfsmat fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá Sambandi sveitarfélaga. Gagnaöflun í starfsmatinu er að mestu lokið. Starfsmat fyrir hjúkrunarfræðinga er ekki lokið þar sem starfsmat starfsmanna sveitarfélaga sem eru í Bandalagi Háskólamanna (BHM) hefur gengið mun hægar en áætlað var. Vonast er til þess að hægt verði að ljúka starfsmatinu sem fyrst.