17.
apríl 2019
Það eru liðin 50 ár frá því Anne Hayes byrjaði að vinna sem hjúkrunarfræðinemi, þá 18 ára gömul, á The Northern General University Teaching Hospital í Sheffield á Englandi. Stuttu eftir að hún útskrifaðist úr hjúkrunarfræði hóf hún ljósmóðurfræðinám í Hull í Englandi sem er hennar heimabær. Þetta var árið 1973.
Mikið menningarsjokk að flytja til Íslands
Í apríl 1975 lá leið hennar til Íslands og hóf hún störf sem hjúkrunarfræðingur á lyflæknisdeild á Landspítalanum og vann þar í 18 mánuði. „Ég fékk gríðarlegt menningarsjokk við að flytja til Íslands. Það var ekki bara veðrið, tungumálið og lítið úrval í búðum sem ollu því, heldur var menningin inn á spítalanum svo gjörólík því sem ég var vön á Englandi,“ segir Anne og tiltekur sérstaklega mikinn mun á klæðaburði. „Hér á Íslandi var ekki óalgengt að sjá stutta kjóla, hnéháa sokka og sandala sem var alls ekki talið vera við hæfi á spítölum á Englandi. Þar máttu kjólar hvorki vera fyrir ofan hné né fyrir neðan, sokkabuxur áttu að vera í dekkri kantinum og skórnir svartir, pússaðir og vel reimaðir og hárið mátti alls ekki snerta kragann á búningnum. Algengt var að heyra yfirhjúkrunarfræðinginn segja: „Þetta er sjúkradeild, ekki tískusýning.“ Anne segir að það hafi tekið hana dágóðan tíma að aðlagast og læra íslensku. „Þetta tímabil var mjög erfitt,“ en á þessum tíma gátu flestir bjargað sér betur á dönsku en ensku.Slysaðist í hjúkrun
„Þegar ég frétti af opnun á Vökudeild (ég var lengi að átta mig á hvernig deild The Waking Clinic væri) sótti ég um flutning og hóf þar störf í október 1976, 8 mánuðum eftir opnunina og hér er ég enn.“ Anne hafði kynnst starfsemi vökudeildar á Englandi á námsárunum, bæði í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðinni. „Ég heillaðist strax. Ég fann mig algjörlega þar.“ Hún hafði upphaflega ekki ætlað að læra hjúkrun og að sögn hennar slysaðist hún í námið. „Ég sé alls ekki eftir þessu „slysi“ og lít á það sem forréttindi að hafa fengið að hjálpa þessum viðkvæma sjúklingahópi á Vökudeildinni og fjölskyldum þeirra.“„… það sem ég þarf núna er gott sumar svo ég geti notið garðsins og litla gróðurhússins míns“
Á þeim árum frá því að hún hóf feril sinn á Vökudeildinni hefur orðið gríðarleg framför og þróun í meðferð, tækni og hjúkrun fyrirbura og veikra nýbura segir Anne. „Það hefur verið virkilega skemmtilegt og spennandi að fá að taka þátt í því. Nú er ég þriggja barna móðir og á sex yndisleg barnabörn sem eru mínir helstu gleðigjafar. Ég hef nú minnkað við mig vinnu og það sem ég þarf núna er gott sumar svo ég geti notið garðsins og litla gróðurhússins míns.“