Hjukrun.is-print-version

Hjúkrunarfræðingar í kvenlegg

RSSfréttir
3. maí 2019

Mæðgurnar Áslaug Pétursdóttir og Þórunn Erla Ómarsdóttir eru báðar hjúkrunarfræðingar. Móðir Áslaugar, og móðuramma Þórunnar Erlu, var einnig menntuð „hjúkrunarkona“ en vann ekki mikið við það eftir barneignir. Áslaug segir að hún hafi, allt frá því að hún man eftir, alltaf ætlað sér að verða hjúkrunarfræðingar. Á hinn bóginn sagði Þórunn Erla ítrekað við móður sína yfir kaffibollanum að hún ætlaði ekki að fara í hjúkrun eins og formæðurnar.

„Þegar ég hins vegar stóð frammi fyrir þessari stóru ákvörðun, hvað ætla ég að verða þegar ég er orðin stór, þá varð hjúkrunarfræðin fyrir valinu,“ segir hún. Hún segir ákvörðunina byggjast fyrst og fremst á því að hún hefur áhuga á fólki og hjúkrunarstarfið er fjölbreytt, krefjandi og spennandi starf sem gefur mikla möguleika á starfsþróun.

Vinnufyrirkomulag á Landspítala ekki fjölskylduvænt

Þórunn Erla útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1998 og hefur því unnið sem hjúkrunarfræðingur í 21 ár. Hún vann fyrstu átta árin eftir útskrift á Landspítala, fyrst á hjartadeild í Fossvogi, svo á hágæsludeild og síðast á gjörgæsludeildinni. Hún segir að vinnufyrirkomulagið á Landspítalanum hafi ekki verið fjölskylduvænt og því hafi hún skipt um starfsvettvang, en hún og eiginmaður hennar eiga þrjú börn. Hún hefur undanfarin 13 ár unnið á Heilsugæslunni Sólvangi í Hafnarfirði – í dagvinnu. Stór hluti verkefna hennar á heilsugæslunni felst í því að sinna börnum og fjölskyldum þeirra í ung- og smábarnaverndinni en einnig er hún á hjúkrunarvaktinni.
Að sögn Þórunnar Erlu einkennist vinnustaðurinn af samheldnum hópi og skemmtilegum vinnufélögum. „Heilsugæslan sinnir ýmsum verkefnum eins og heilsuvernd og lífstíls forvörnum. Það er gefandi að vera virkur þátttakandi í þeirri teymisvinnu sem fram fer innan heilsugæslunnar og stuðla þannig að því að efla og styrkja heilsugæsluna í því hlutverki hennar að vera fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu.“

Barnaheimili á spítölunum

Áslaug, sem er 67 ára, hætti að vinna fyrir um ári síðan eftir að hafa unnið við hjúkrun í 46 ár en hún útskrifaðist úr Hjúkrunarskólanum 1973. „Mér fannst það komið nóg eftir að hafa verið í vaktavinnu öll þessi ár. Ég hef unnið víða og fannst gaman að fá mismunandi reynslu,“ segir hún, en hún hefur unnið við öldrunarhjúkrun á Sólvangi, við endurhæfingu á Grensás, á gjörgæslunni í Fossvogi, á handlækningadeildinni í Fossvogi og á lungnadeildinni á St. Jósefsspítala á Vífilsstöðum. Áslaug fór svo í skurðnám 1994 og er mjög sátt við þá ákvörðun. Það er gaman að vinna á skurðstofu, ótrúlega mikil hjúkrun og skemmtileg tæknivinna þar en ég vann bæði á Hringbraut, St. Jôsefsspítala og síðast á skurðstofunni í Fossvogi.“ Áslaug segir það hafa verið forréttindi að geta verið í hlutastarfi eftir hentugleika. Á sínum tíma ráku spítalarnir „barnaheimilin“ eins og þau voru kölluð. „Þegar maður réð sig í vinnu hjá þeim komust börnin sjálfkrafa. Það voru líka forréttindi.“ Áslaug er gift og þriggja barna móðir og á orðið sjö barnabörn. „Ég er mikil fjölskyldumanneskja og finnst ekkert skemmtilegra en þegar ég er með fullt hús af fólki og öll barnabörnin í mat. Ég tel mig vera rosalega ríka og heppna í lífinu.“

Þær mæðgur eru báðar mjög sáttar við þá ákvörðun að hafa lagt fyrir sig hjúkrunarfræði. „Ég er ánægð í dag með það að hafa valið hjúkrun þrátt fyrir að vera ekki alltaf ánægð með launin,“ segir Þórunn Erla. „Starfandi á heilsugæslunni, þá tel ég að hjúkrunarfræðingum sé alls ekki greidd laun í samræmi við menntun og ábyrgð og það að horfa á laun hjúkrunarfræðinga með tilliti til vaktaálags er kolröng nálgun í launasamanburði háskólamenntaðra stétta.“

Nóg að gera í frítímanum

Fyrir utan að vera báðar hjúkrunarfræðingar að mennt, eiga þær mæðgur það sameiginlegt að vera virkar fyrir utan vinnu. Áslaug og eiginmaður hennar stunda golfið af kappi, en auk þess er hún í leikfimi, hún málar postulín og er í kór Fríkirkjunnar í Hafnarfirði. „Þannig að ég hef nóg að gera.“ Þá eru þau hjónin í hjónaklúbb en þar fyrir utan er Áslaug í mörgum „saumaklúbbum“ eins og hún orðar það. „Við hittumst oft sem unnum saman á skurðstofum á St. Jósefsspítala eftir að spítalanum var lokað - sem var mikil synd. Köllum okkur Jósefínur. Eins er „hollið“ mitt oft að hittast,“ segir hún.


„Mínum frítíma ver ég mikið í hreyfingu og þar er ég að sinna sjálfri mér því hlaupin gefa mér andlega og líkamleg næringu með frábærum hlaupafélögum“

Þórunn Erla fékk hlaupabakteríuna fyrir nokkrum árum þegar hún byrjaði að hlaupa með Skokkhópi Hauka, en þau hjónin eru bæði í hlaupunum. „Mínum frítíma ver ég mikið í hreyfingu og þar er ég að sinna sjálfri mér því hlaupin gefa mér andlega og líkamleg næringu með frábærum hlaupafélögum,“ segir hún. Hún hefur hlaupið hálf maraþon, maraþon og Laugaveginn ultra marathon og er núna að undirbúa sig fyrir annað Laugavegshlaup í sumar. „Börnin mín eru öll í fótbolta og þar er ég líka á hliðarlínunni að hvetja þau áfram í sinni íþrótt.“ Þá fer mikill tími í framhaldsnámið um þessar mundir en hún hóf sérrnám í heilsugæsluhjúkrun við Háskólann á Akureyri árið 2016 og vinnur nú að lokaritgerð í meistaranámi á heilbrigðisvísindasviði. „Þetta er mjög skemmtileg framhaldsnám en það var virkilega krefjandi viðfangsefni að byrja í náminu og takast þar á við fjölbreytt verkefni, teymisvinnu og akademísk vinnubrögð sem svona framhaldsnámi fylgir.“

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála