Hjukrun.is-print-version

Hefur hjúkrað föngum í aldarfjórðung

RSSfréttir
Hulda Birgisdóttir hjúkrunarfræðingur, Björk Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og Haraldur Dungal læknir.
10. maí 2019

Björk Guðmundsdóttir var staðráðin í því að fara í nám sem gæfi henni réttindi til að starfa við umönnun eftir að hafa unnið sumarlangt við umönnun íbúa á Kópavogshæli, þá 17 ára gömul. Þá um haustið sótti hún um í Hjúkrunarskólanum en vegna ungs aldurs fékk hún ekki inngöngu. Hún lét þó ekki þar við sitja og sótti aftur um. Þáverandi skólastjóri Hjúkrunarskólans, Þorbjörg Jónsdóttir, hvatti hana til að fara í undirstöðunám, sem hún og gerði, og fékk hún svo inngöngu í skólann 1972.

Björk er fædd og uppalin í Kópavogi á þeim tíma þegar Kópavogur var barnabærinn mikli. Hún passaði mikið börn sem krakki og hafði mikla ánægju af því. „Ég gekk í hús og bað um að fá að passa börn. Réð mig í fyrstu vistina 7 ára og var í vist öll sumur þar til ég var 14 ára en þá fékk ég vinnu í penslagerð. Penslagerð stundaði ég í 3 sumur og fannst það ákaflega leiðinlegt og lítið gefandi,“ segir hún. Í kjölfarið fór hún að vinna á á Kópavogshæli og þaðan í hjúkrunarnám. „Þegar ég var á öðru ári í verklegu námi á Kleppi lét deildarstjórinn mig lofa sér að koma og vinna á Kleppi að námi loknu. Það gerði ég og hef ég verið meira og minn í starfi á geð- og fíknisviði allar götur síðan,“ segir Björk.

Byrjaði í kvennafangelsinu

Björk hefur unnið 7 ár á Vogi, verið deildarstjóri geðdeildar á Akureyri, forstöðumaður á geðathvarfi í Kópavogi, en undanfarin 25 ár hefur hún unnið við hjúkrun í fangelsum. „Það atvikaðist þannig að þegar ég var að vinna á Vogi var leitað þangað eftir hjúkrunarfræðingi til starfa í Kópavogsfangelsið, sem þá var kallað kvennafangelsi. Þetta var 25% starf og mér fannst það standa mér næst að hjálpa til, þar sem ég var búandi í Kópavogi,“ segir Björk, en hún byrjaði að vinna þar 1994 og vann þar allt til því var lokað árið 2016. Þá vann hún í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg frá því það var opnað 1996 og þar til því var lokað 2017. Einnig vann hún á Litla-Hrauni í 5 ár. Að sögn hennar hafa fangelsisstörfin öll verið hlutastörf og því hefur hún unnið í öðrum störfum samhliða. Fangelsið á Hólmsheiði opnaði árið 2017 en þar er hún nú í 50% starfi og 50% starfi á Móttögugeðdeild á Hringbraut. Eftir að hafa unnið eitt ár í fangelsinu á Hólmsheiði óskaði hún eftir að ráðinn yrði hjúkrunarfræðingur í hlutastarf með henni sökum mikils álags og ábyrgðar. „Ég er svo heppin að góð vinkona og næstum fósturdóttir mín, Hulda Birgisdóttir, er tilbúin að hjálpa mér á Hólmsheiði. Hennar aðalstarf er á bráðamóttöku Fossvogi og hefur hún líka unnið á hjartagáttinni svo okkar ólíku grunnar nýtast vel í fangelsunum,“ segir Björk.

Óvissa um störf hjúkrunarfræðinga í fangelsum

„Það hefur verið mikil og áhugaverð reynsla að sinna föngum öll þessi ár. Mikið hefur breyst á þessum árum og er það helst aukin fíkniefnaneysla í samfélaginu og svo aftur aukin fagmennska hjá fangavörðum í fangelsinu. Frá byrjun og þar til í febrúar á þessu ári var Heilsugæslan Lágmúla 4 verktakar um heilsugæslu í fangelsunum á höfuðborgarsvæðinu og var ég ráðin hjá þeim. Það voru nokkrir læknar frá Lágmúlanum sem sinntu fangelsunum og átti ég mjög gott samstarf með þeim. Nú er Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu tekin við heilsugæslunni á Hólmsheiði og erum við hjúkrunarfræðingar ráðnar hjá þeim,“ segir Björk. Að sögn hennar ríkir mikil óvissa um störf hjúkrunarfræðinga í fangelsum. „Ráðherra talar um að setja fullt af fjármagni í geðheilbrigðismál í fangelsum en við erum ekki farin að sjá neitt gerast í þeim málum enn,“ segir hún.


„Það sem mér finnst skemmtilegast við starf mitt í fangelsunum er að finna að það sem ég geri skiptir máli, að hjálpa skjólstæðingunum og efla starf fangavarða. Það að hitta fyrrum skjólstæðinga í góðum bata er sá hvati sem heldur mér gangandi í þessu starfi.“

Það styttist í starfslok hjá Björk en hún er að verða 66 ára. „Ég ætla ég að vera í fríi í 3 mánuði í sumar til að æfa mig í að vera ellikerling,“ segir hún og bætir við: „Ég veit að fangelsið er í góðum höndum hjá Huldu minni og vonandi finnur hún góðan hjúkrunarfræðing með sér.“ Hún er að undirbúa starfslok þótt erfitt sé að sleppa alveg takinu. „Það sem mér finnst skemmtilegast við starf mitt í fangelsunum er að finna að það sem ég geri skiptir máli, að hjálpa skjólstæðingunum og efla starf fangavarða. Það að hitta fyrrum skjólstæðinga í góðum bata er sá hvati sem heldur mér gangandi í þessu starfi.
Það að fá nýtt fangelsi á Hólmsheiði var mjög langþráð og er mjög skemmtilegt að fá að móta starf hjúkrunar og heilsugæslu þar,“ segir hún.

„Öll garðvinna er mér að skapi“

Björk er fráskilin og á 3 uppkomin börn og 3 barnabörn, en hún býr í nágrenni við tvær dæturnar og barnabörnin. Hún hefur mikinn áhuga á útivist og þá sérstaklega göngum. Hún hefur verið í gönguhóp undanfarin 26 ár sem hefur gengið saman um landið og einnig út fyrir landsteinana. „Við erum búin að fara mjög víða um landið og upplifa alveg stórkostlega staði og í sumar er skipulögð 5 daga ferð um heiðar Austfjarða.“ Björk hefur einnig mikinn áhuga á skógrækt. „Það eru ansi víða plöntur sem ég hef potað niður með skógræktafélögum eða bara á eigin vegum. Öll garðvinna er mér að skapi og þar sem ég hef ekki eigin garð í núverandi búsetu þá fæ ég að róta og tæta í görðum dætra minna.“
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála