17.
maí 2019
Frá því í lok síðustu aldar hefur Lilja Jónasdóttir veitt krabbameinssjúklingum og aðstandendum þeirra einstaklingsmiðaða slökunar- og stuðningsmeðferð. Lilja lærði dáleiðslu hjá Jakobi Jónassyni geðlækni á árunum 1993-1995, og síðar hjá Michael Yapco, en hluti af innleiðingu í dáleiðslu er djúpslökun.
Lilja var ung þegar hún lærði djúpslökun og öndunartækni sem hún hefur síðan nýtt sér í daglegu lífi. „Ég lærði slökun árið 1972 og hef notað slökun sjálf, einkum þegar mikið hefur legið við eins og gerist einstaka sinnum. Ég sá því fljótt að hægt var að nýta þetta á margvíslegan hátt og á tímabili fannst mér þetta vera það tæki sem ég gat notað víðast og dýpst til að hjálpa einstaklingum að aðlagast breyttum aðstæðum.“
Aldrei ætlunin að fara í hjúkrun
Lilja hefur lengstan hluta starfsævinnar, eða frá 1995-2013, unnið á dagdeild blóðsjúkdóma- og krabbameinslækningadeildar Landspítalans. Hún segist ekki getað hugsað sér fjölbreyttara og meira gefandi starf. En það var aldrei ætlunin hjá Lilju að leggja fyrir sig hjúkrun. „Ég ætlaði alls ekki í hjúkrun. Vinkona mín, Áslaug Pétursdóttir, var alveg staðföst í að læra hjúkrun. Ég reyndi að tala hana til, fannst hún vera að loka sig inni í erfiðu starfi. Ég sá fyrir mér blóð, verki og eymd og fór bara í flugfreyjuna á þeim tíma! Svo liðu nokkur ár, ég þroskaðist og mig langaði í innihaldsríkara starf. Einnig vó þungt í mínum huga að nemar voru á launum á námsárunum á þeim árum (samt vorum við bara illa launaður starfskraftur) og starfsöryggið var mikið. Ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun minni og get ekki hugsað mér fjölbreyttara og meira gefandi starf,“ en Lilja útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands haustið 1978, og lauk síðan BS-prófi 1999 frá námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.Slökun í krabbameinsmeðferð til að draga úr aukaverkunum
Í byrjun sinnti hún almennum störfum hjúkrunarfræðinga á dagdeildinni, meðal annars við eftirlit og stuðning við krabbameinsveika og aðstandendur og einnig við krabbameinslyfjagjöf. Að sögn hennar þróaðist starfið svo sífellt meira í að veita sérhæfða stuðningsmeðferð, en strax og hún hóf að læra djúpslökun fékk hún leyfi hjúkrunarforstjóra til að nýta þá þekkingu í starfi. „Hjúkrunarstjórnendur deildarinnar voru það framsýnir að frá árinu 1999 var hluti af starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur að veita einstaklingum slökun til að draga úr aukaverkunum sem fylgja oft krabbameinsmeðferð og létta fólki stundina þegar það staldraði við á deildinni og einnig að kenna því slökun sem það gat síðan notað hvenær sem er sjálft.“„Að auki kenndi ég öndunartækni, slökun og sjálfsdáleiðslu og notaði dáleiðslu markvisst til styrkingar og til að hafa áhrif á hugsanir um sjúkdóminn eða vinna með nálafóbíu eða áunna ógleði, svo dæmi sé tekið“
Hún segir val á meðferð fari eftir einstaklingnum sjálfum, líðan hans og aðstæðum. „Ég var að hjálpa fólki að aðlagast breyttum aðstæðum. Styðjandi samtal og fræðsla var grunnurinn. Ég hafði lokið ársnámi í hugrænni atferlismeðferð við Endurmenntun HÍ, og það var góður grunnur til að vinna með kvíða og kvíðatengdar hugsanir. Að auki kenndi ég öndunartækni, slökun og sjálfsdáleiðslu og notaði dáleiðslu markvisst til styrkingar og til að hafa áhrif á hugsanir um sjúkdóminn eða vinna með nálafóbíu eða áunna ógleði, svo dæmi sé tekið.“ Mikil þróun hefur orðið á krabbameinsmeðferð og margt er breytt frá því sem áður var þegar fólk lagði sjálft sig í hendur lækna og hjúkrunarfólks og varð þolendur. „Þekkingin gerir því kleift að verða þátttakendur í ákvarðanatöku og líðan verður allt önnur þegar það finnur að það er sjálft við stjórnvölinn.“
Forréttindi að geta bætt líðan sjúklinga með einföldum aðferðum
Það eru forréttindi að vera samferða einstaklingum í mismunandi aðstæðum í lífi þeirra og geta bætt líðan þeirra með einföldum aðferðum segir Lilja. „Í byrjun var það fjölbreytni starfsins sem fullnægði mér. Mér fannst svo gaman að takast á við eitthvað nýtt. Um leið og mér fannst starfið orðið vanabundið, þá færði ég mig. Fyrstu árin skipti ég um deild á þriggja ára fresti. Eftir að ég hóf störf á krabbameinsdeildunum þá voru það mannleg samskipti og nálægð við fólk sem nærði mig.“ Um tíma vann Lilja á lýtalækningadeild og að sögn hennar gaf djúpslökun mjög góða raun til að draga úr verkjum, sem og að hjálpa fólki að sættast við breytta sjálfsímynd í kjölfar brunasára. „Slökunin dregur einnig úr kvíða, bætir svefn og margt fleira. Ég sá því fljótt að hægt var að nýta þetta á margvíslegan hátt og á tímabili fannst mér þetta vera það tæki sem ég gat notað víðast og dýpst til að hjálpa einstaklingum að aðlagast breyttum aðstæðum.“Lilja hefur alla tíð haft áhuga á tengslum og samspili á milli líkama og hugar. „Ég er alltaf með opinn hugann að læra um aðferðir þar sem einstaklingurinn getur haft áhrif á líðan sína. Þarna má nefna slökun, jóga, sjónsköpun, hugleiðslu - þar með talið innhverf íhugun og gjörhygli - og hugræn atferlismeðferð. Einnig finnst mér athyglisvert að skoða áhrif markvissar hreyfingar á heilsufar, orkubúskapinn og andlega líðan. Því kynntist ég vel þegar við stýrðum gönguhópum fyrir krabbameinsveika á árunum 1998-2008. Veruleg breyting var á líðan fyrir og eftir göngu.“ Lilja situr í stjórn Fagdeildar um samþætta meðferð í hjúkrun (integrative nursing), en markmið deildarinnar er að stuðla að viðurkenningu á notkun gagnreyndrar samþættrar meðferðar innan heilbrigðiskerfisins.
Óhrædd við að fara út fyrir þægindarammann
Lilja, sem er 68 ára gömul, lauk störfum á Landspítala 2013. Hún er gift Stefáni Halldórssyni, félags- og rekstrarhagfræðingi. Stefán hefur einnig dregið úr vinnu, sinnir nú einungis sérvöldum verkefnum og eiga þau hjónin því góða tíma saman. Þau eiga þrjár dætur og fimm barnabörn. Ein dóttir þeirra er Sólveig Stefánsdóttir, fjármálastjóri Fíh.„Nú þegar ég er hætt að vinna og hef betri tíma þá hef ég tekið upp ný áhugamál,“ en Lilja hreyfir sig mikið og ferðast um á hjóli þegar vegalengdirnar leyfa. „Einnig höfum við hjónin hjólað nokkuð erlendis, en við ferðumst mikið.“ Þá syngur hún í Valskórnum sem að sögn hennar er hinn skemmtilegasti félagsskapur, sem og að hafa sungið með Hátíðakór hjúkrunarfræðinga sem stofnaður var í tilefni af 100 ára afmælinu. „Það var dásamlegt að syngja með þessum flotta kór í hjúkrunarmessunni í Grafarvogskirkju 12. maí,“ segir hún. Lilja segist fara oft út fyrir þægindarammann og geri ýmislegt sem hún taldi sig ekki geta lært, en hún syndir reglulega skriðsund eftir að hafa skellt sér á skriðsundsnámskeið og er byrjuð að mála eftir að hafa farið á námskeið í olíumálun.