Í tilefni 100 ára afmælis Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga voru veittir styrkir til frumkvöðla í þróun og eflingu hjúkrunar hér á landi. Styrkjunum er ætlað að styðja frumkvöðla til að afla sér frekari þekkingar eða þjálfunar sem nýtist þeim til að þróa enn frekar nýsköpunarverkefni sem þeir eru í forsvari fyrir. Um er að ræða fimm 500.000.- króna styrki.
Öllum félagsmönnum í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga var boðið að tilnefna þann frumkvöðul sem þeir töldu að hljóta eigi hvatningarstyrk. Alls bárust 47 tilnefningar um 34 hjúkrunarfræðinga.
Hvatningastyrk til frumkvöðla í hjúkrun á Íslandi að upphæð 500.000 krónur hver hlutu hjúkrunarfræðingarnir:
Arna Skúladóttir, frumkvöðull á sviði hjúkrunar barna með svefnvandamál og foreldra þeirra.
Ásta Thoroddsen, brautryðjandi í upplýsingatækni í hjúkrun á Íslandi.
Ásgeir Valur Snorrason, brautryðjandi í þróun og kennslu í svæfingarhjúkrun og herminámi í kennslu hjúkrunarfræðinga.
Helga Sif Friðjónsdóttir, frumkvöðull og leiðtogi í innleiðingu á hugtakinu skaðaminnkun á Íslandi, hjúkrun jaðarsettra hópa hér á landi og áhugahvetjandi samtali.
Nanna Friðriksdóttir, leiðtogi og frumkvöðull í krabbameinshjúkrun á Íslandi, leiðandi í uppbyggingu náms í krabbameinshjúkrun og þróun þjónustu við fólk sem lokið hefur krabbameinsmeðferð.