24.
maí 2019
Það var áhugi á heilbrigðisvísindum sem varð til þess að Guðjón Hauksson ákvað að fara í hjúkrunarfræði. Nám í hjúkrun gefur mjög góða þekkingu á heilbrigðisvísindum í víðum skilningi að sögn hans. Guðjón sá alltaf fyrir sér að mennta sig meira og varð hagfræðin fyrir valinu. „Kenningar hagfræðinnar nýtast vel til útskýringar á mannlegri hegðun og því hvaða hvatar liggja að baki hegðun okkar. Öll viljum við hag okkar sem mestan,“ segir hann.
„Það skemmtilegasta við það starf sem ég gegni núna eru þau miklu samskipti sem starfið krefst og að fá tækifæri til þess að vinna að framþróun heilbrigðisþjónustu í samvinnu við afar hæft fólk,“ segir Guðjón, en hann gegnir nú stöðu forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands.
Öll útivist er heillandi
Guðjón útskrifaðist árið 2006 frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hann fór síðan í meistaranám í heilsuhagfræði og síðan lá leiðin til Boston þar sem hann lauk meistaragráðu í rannsóknum í heilbrigðisvísindum. Hann er 38 ára gamall og er giftur Birgittu Ingu Birgisdóttur hjúkrunarfræðingi. Þau eiga fjögur börn og fjölskylduhundinn Jaka.Honum þykir fátt skemmtilegra en stangveiði og skotveiði. Hann á mörg áhugamál en tíminn er takmarkaður til að sinna þeim. „Að sigla um á spegilsléttum sjó á kajak er einnig frábær tilfinning, sem og að renna sér í góðu veðri á skíðum. Öll útivist finnst mér heillandi enda góð fyrir bæði líkama og sál.“