Bráðahjúkrunin er svo fjölbreytileg
„Hraðinn á bráðamóttökunni á betur við mig“ segir hún. „Við erum lítil deild, með fá rúm en margar komur á sólarhring og verðum því að losna við sjúklingana fljótt til að geta sinnt öllum sem þurfa þjónustu frá okkur“. Að sögn Írisar fá þau veika og slasaða einstaklinga á öllum aldri, allt frá nýburum til háaldraðra. „Það sem er svo skemmtilegt við bráðahjúkrunina er fjölbreytnin“ segir hún og heldur áfram. „Við fáum veika og slasaða sjúklinga á öllum aldri, allt frá nýburum til háaldraða. Einnig kemur það fyrir að hjúkrunarfræðingur á deildinni fari með lækninum út í bæ í endurlífgun. Hjúkrunarfræðingar, læknir og sjúkraliði á deildinni vinna saman í teymi sem hentar mér vel. Það er góð tilfinning að geta hjálpað öðrum“.
„Það er svo góð tilfinning að geta hjálpað öðrum“.
Íris hefur alla tíð unnið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og byrjaði á slysa- og bráðamóttökunni haustið 1994. Hún hefur verið deildarstjóri þar frá 1996 en segir að þrátt fyrir að vera í því hlutverki, sé hún mest í klínísku starfi. Íris lauk diplómanámi í bráðahjúkrun árið 2010 og meistaragráðu í hjúkrun bráðveikra 2016.
Íris er gift Jóni Kristjánssyni og saman eiga þau einn son en Jón átti annan son fyrir. „Barnabörnin eru fjögur og höfum við hjónin gaman af því að ferðast. Siglingar á skemmtiferðaskipum eru ofarlega á listanum og einnig höfum við gaman af því að vera í sumarbústaðnum okkar í Grímsnesinu“ segir hún að lokum.