Hjukrun.is-print-version

Ákvað strax í grunnskóla að læra hjúkrunarfræði

RSSfréttir
21. júní 2019

„Helsti kostur starfsins er hvað það er skemmtilegt,“ segir Birgir Örn Ólafsson, skurðhjúkrunarfræðingur á Landspítala í Fossvogi, og klínískur ráðgjafi á Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítala. „Vinna á skurðstofum er mjög skemmtileg og þar er mikið unnið í teymisvinnu þar sem hver og einn hefur sitt hlutverk og sína ábyrgð en allir að vinna með sama sjúklinginn á sama tíma.“


„Ég vissi raunar ekki mikið um hvað hjúkrunarfræðingar gerðu í vinnunni en mér fannst starfsvettvangurinn spennandi og vissi að möguleikarnir voru miklir til að sérhæfa sig á ákveðnum sérsviðum innan hjúkrunar.“

Birgir Örn útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við HÍ 2004 og sérnámi í skurðhjúkrun 2008. Hann lauk síðan meistaranámi í hjúkrunarfræði 2016. Strax í grunnskóla var hann ákveðinn í að læra hjúkrunarfræði en hann hafði mestan áhuga á raungreinum og þá sér í lagi líffæra- og lífeðlisfræði, eða allt sem viðkemur mannslíkamanum. „Þegar ég var í 10. bekk í grunnskóla fletti ég í gegnum námsskrár og kennsluáætlanir frá nokkrum framhaldsskólum og Háskóla Íslands og skoðaði allt sem var heilbrigðistengt. Niðurstaðan af því var sú að ég ætlaði að læra hjúkrunarfræði,“ segir hann. Hann valdi því að fara á náttúrufræðibraut í Framhaldsskóla Suðurlands og valdi öll valfög sem í boði voru sem gætu nýst sem undirbúningur fyrir hjúkrunarfræði. „Ég vissi raunar ekki mikið um hvað hjúkrunarfræðingar gerðu í vinnunni en mér fannst starfsvettvangurinn spennandi og vissi að möguleikarnir voru miklir til að sérhæfa sig á ákveðnum sérsviðum innan hjúkrunar.“

Fjölmargir og ólíkir starfsmöguleikar í hjúkrun

Birgir Örn segir starfið á skurðstofum vera mjög fjölbreytt og umhverfið tæknivætt sem henti honum vel. „Starfið á Heilbrigðis- og upplýsingatæknideildinni er einnig mjög skemmtilegt og veitir mér möguleika á því að móta það tækniumhverfi sem ég síðan vinn í á skurðstofunni. Hvað hjúkrun varðar almennt, þá eru helstu kostir starfsins allir þessir fjölmörgu og ólíku starfsmöguleikar sem við höfum. Breytileikinn á milli þess að starfa á skurðstofu, heilsugæslu, geðdeild, hjúkrunarheimili eða einhverju allt öðru sviði innan hjúkrunar, hérlendis eða erlendis er stórkostlegur,“ segir Birgir.

„Ég get spilað á nokkur hljóðfæri þó ég teljist seint mjög fær á því sviði“

Áhugamál Birgis eru tónlist og hljóðfæri en eiginkona hans, Vilborg Hlöðversdóttir, er tónlistarkennari. „Ég get spilað á nokkur hljóðfæri þó ég teljist seint mjög fær á því sviði.“ Hann starfar einnig sem sviðsstjóri og tæknimaður á ýmsum tónleikum og tónlistarviðburðum. Þau hjónin eiga von á þriðja barninu sínu í júlímánuði en fyrir eiga þau synina Sindra, sem er 9 ára, og Andra, sem er 5 ára gamall. Fjölskyldan hefur gaman af því að ferðast bæði innanlands og utan en einnig hefur Birgir gaman af íþróttum en að sögn hans hefur hann einbeitt sér meira að íþróttaáhorfi í seinni tíð.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála